Viðskipti innlent

Þriðju stærsta yfirtaka Íslendingar til þessa

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson á uppgjörsfundi hjá Marel.
Árni Oddur Þórðarson á uppgjörsfundi hjá Marel.
Samhliða því að Marel kaupir Stork Food Systems, eignast Eyrir Invest og Landsbankinn fjórðungshlut í Stork N.V. í Hollandi í gegn um fjárfestingafélagið London Aquisition N.V. (L.A.). Eyrir á 15 prósent, Landsbankinn 10 prósent og restina á breski fjárfestingasjóðurinn Candover.

LME Eignarhaldsfélag, sem var í eigu Marels, Eyris og Landsbankans, selur allan sinn hlut til L.A., sem kaupir Stork samstæðuna, utan Food Systems hlutann, fyrir um 1,7 milljarða evra, eða sem nemur um 155 milljörðum íslenskra króna.

Yfirtakan er því líklega sú þriðja stærsta sem Íslendingar koma að, á eftir kaupum Kaupþings á hollenska bankanum NIBC á yfir 250 milljarða og yfirtöku Novators á Actavis sem metin var á um 175 milljarða króna.

Árni Oddur Þórðarson, framkvæmdastjóri Eyris, tekur í framhaldinu sæti í stjórn Stork N.V. í Hollandi. Þar vekja viðskiptin mikla athygli enda Stork stærsta iðnaðarsamstæða landsins. „Að frátöldum Food hlutanum starfa um 11 þúsund starfsmenn hjá Stork," segir Árni Oddur.

Áframhaldandi starfsemi Stork N.V. er tvíþætt, Aerospace hluti sem snýr að þjónustu við flugvélaframleiðendur á borð við Airbus, Boeing og Fokker og Technical Services, þar sem mestur vöxtur er í þjónustu við olíu- og gasiðnað. Árni Oddur er bjartsýnn á framtíðarmöguleika beggja sviða.

„Aerospace er að koma úr lægð, virðist miðað við pantanastöðu sjö til átta ára uppsveifla fram undan."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×