Innlent

Sektaður fyrir vörslu barnakláms

Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur dæmt karlmannn til að greiða 250 þúsund krónur í sekt fyrir vörslu barnakláms. Efnið, alls 54 ljósmyndir og ein hreyfimynd, fannst í tölvu mannsins en lögregla gerði húsleit á heimili hans eftir að alþjóðalögreglan Interpol hafði tilkynnt henni um að maðurinn hefði sótt sér efnið.

Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn að hann skoðaði mikið klám á Netinu en sagðist ekki leita í barnaklám. Myndirnar sem um ræddi hefðu birst í svokölluðum uppskotssíðum (e. pop-up) sem hann hefði ekki valið. Út frá framburði sérfræðings í tölvumálum taldi dómurinn hins vegar sannað að maðurinn hefði farið inn á heimasíður með barnaklám af ásetningi.

Maðurinn byggði einnig vörn sína á því að hann hefði eytt mörgum myndanna og hefði því ekki haft þær í sinni vörslu en sumar þeirra fundust á hörðum diski tölvunnar.

Út frá dómafordæmi sakfelldi dómurinn manninn fyrir vörslu 42 ljósmynda og hreyfimyndarinnar en tók tillit til þess við ákvörðun refsingar að einungis fjórar til sex af myndinum hefðu talist grófar. Þá hefði maðurinn gert tilraun til þess að eyða myndunum.

Var brot hans því ekki talið stórfellt í skilningi laganna og var hann því sektaður um kvartmilljón króna sem fyrr segir. Þá var tölva hans jafnframt gerð upptæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×