Viðskipti innlent

Glitnir spáir lækkun bensínverðs

Greiningardeild Glitnis segir íslensku olíufélögin ekki hafa lækkað verð á eldsneyti síðan í nóvember en gerir ráð fyrir lægra bensínverði hér á landi á næstunni.
Greiningardeild Glitnis segir íslensku olíufélögin ekki hafa lækkað verð á eldsneyti síðan í nóvember en gerir ráð fyrir lægra bensínverði hér á landi á næstunni. MYND/Hari

Olíuverð lækkaði nokkuð stöðugt undir lok síðasta árs. Verð á Brent Norðursjávarolíu stóð í 55 dölum á tunnu í gær og þykir ljóst að verðið er komið talsvert úr þeim methæðum sem það fór í um mitt síðasta ár. Greiningardeild Glitnis segir íslensku olíufyrirtækin ekki hafa lækkað eldsneytisverð síðan 22. nóvember í fyrra en telur líkur á lækkun á næstunni.

Greiningardeild Glitnis bendir á það í Morgunkorni sínu í gær að að lækkun á olíuverði síðustu vikurnar megi aðallega rekja til hlýinda á austurströnd Bandaríkjanna. Fjórði ársfjórðungur sé alla jafna sá söluhæsti á árinu en líklega megi enn búast við kuldakasti í Bandaríkjunum. Þá hafi olíubirgðir aukist þrátt fyrir að OPEC-ríkin, samtök olíu útflutningsríkja, hafi ákveðið að draga úr olíuframleiðslu um 1,2 milljónir tunna á dag frá 1. nóvember.

Framleiðslan verður minnkuð enn frekar í næsta mánuði til að koma í veg fyrir of miklar birgðir. Búist er við að olíuverð muni halda áfram að lækka á næstunni, að sögn greiningardeildar Glitnis sem bendir á að verð á Brentolíu hafi lækkað um 7 prósent síðan olíufélögin lækkuðu bensínverð í nóvember en gengi krónunnar hækkað um eitt prósent á sama tíma. Neytendur eigi því von á lækkun bensínverðs á næstunni sem muni aftur lækka verðbólguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×