Viðskipti innlent

Finnur Ingólfsson: Lækkunin ekki í takt við virði Icelandair

Finnur Ingólfsson mælir með kaupum í Icelandair.
Finnur Ingólfsson mælir með kaupum í Icelandair.

Athafnamaðurinn Finnur Ingólfsson seldi rúmlega 15% hlut sinn í Icelandair 31. ágúst síðastliðinn. Í dag er gengi bréfa félagsins 30,5% lægra en þegar Finnur seldi og má því leiða líkum að Finnur hafi selt á hárréttum tíma.

Í samtali við Vísi þann dag sem hann seldi sagðist Finnur vera svakalega sáttur en þegar Vísir ræddi við hann í dag var hann leiður fyrir hönd hluthafanna sem hafa horft upp á hlut sinn í félaginu rýrna verulega að undanförnu.

"Ég sá þetta ekki fyrir þetta hrun þegar ég seldi. Það voru aðrar ástæður sem lágu að baki sölunni á bréfunum mínum," segir Finnur í samtali við Vísi.

Hann segist þó sannfærður um að lækkunin sem hafi átt sér stað á bréfum félagsins að undanförnu sé úr takti við raunverulegt virði félagsins. "Ég held að lækkunin sé tilkomin af þremur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna lítilla viðskipta með bréf í félaginu, í öðru lagi vegna þess að afkoma á þessu ári ekki samræmi við væntingar þótt hún sé betri en oft áður og í þriðja lagi glímir Icelandair við sama vandamál og önnur félög sem er miklar lækkanir á mörkuðum," segir Finnur um ástæður þessarar hröðu lækkunnar.

Aðspurður segist Finnur ekki hafa í hyggju að kaupa bréf í Icelandair nú þótt hann telji gengi bréfanna langt undir markaðsvirði. "Ég er þó viss um sá sem kemur inn núna í félagið á eftir að græða fullt af peningum," segir Finnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×