Innlent

Sakar DV um að hafa beitt sér á óeðlilegan hátt

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að fara þurfi yfir lög um fjármál stjórnmálaflokka sem sett voru í fyrra. Formaður Framsóknarflokksins sakaði á Alþingi í dag fyrirtæki og einkaaðila um að hafa beitt sér á óeðlilegan hátt í nýafstaðinni kosningabaráttu.

Í byrjun þessa árs tóku gildi ný lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Þar er meðal annars kveðið á um að einstaklingar og fyrirtæki megi ekki styrkja hvern stjórnmálaflokk um meira en 300.000 krónur á ári hverju.

Í framhaldi af lagasetningunni komu stjórnmálaflokkarnir sér saman um að auglýsa ekki í fjölmiðlum á landsvísu fyrir meira en 28 milljónir króna.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, velti því fyrir sér á Alþingi í dag hvort að sérstakt kosningablað DV og auglýsingar Jóhannesar Jónssonar fyrir nýafstaðnar kosningar væru ekki óeðlileg afskipti fyrirtækja og einstaklinga af kosningabaráttunni. Kosningablað DV var gefið aukalega í vikunni fyrir kosningar og dreift frítt í eitt hundrað þúsund eintökum. Guðni sagði umfjöllun í blaðinu ekki hafa verið hlutlausa og til þess fallna að hafa áhrif á kosningarnar. Auglýsingar Jóhannesar Jónssonar birtist stuttu fyrir kosningar en þar hann hvatti kjósendur til að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra á kjördag. Guðni spurði forsætisráðherra hvort ekki væri rétt að skoða endurskoða lögin í ljósi þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×