Viðskipti innlent

Morgan Stanley metur Kaupþing

sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka heldur ræðu á aðalfundi bankans í mars í fyrra.
sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings banka heldur ræðu á aðalfundi bankans í mars í fyrra.

Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley hefur gefið út nýtt verðmat á Kaupþingi. Bankinn segir markgengi á bréfum bankans vera 94 sænskar krónur á hlut, eða rúmar 953 krónur miðað við gengi gærdagsins.

Mat Morgans Stanley er 47 krónum lægra en mat bandaríska bankans Citigroup á Kaupþingi undir lok síðustu viku. Morgan Stanley gerir þó þann fyrirvara við matið að markgengið geti hækkað um 8 prósent á árinu. Gengi Kaupþings stóð við lok viðskipta í gær í 905 krónum á hlut.

Í mati Morgan Stanley segir meðal annars að arðsemi hlutafjár Kaupþings geti numið 10 prósentum á þessu ári. Gengi Kaupþings er almennt séð sagt vera gott og að bankinn eigi auðvelt með að vaxa á erlendum mörkuðum.

Arðsemi hlutafjár bankans er sögð vera sambærileg við það sem almennt gerist meðal evrópskra banka. Uppáhaldsbanki Morgan Stanley er hins vegar eftir sem áður sagður vera Swedbank.

Í greiningu Morgan Stanley segir jafnframt að fjárfestar ættu ekki að láta efnahagshorfur hér hafa áhrif enda sé áhætta bankans af þeim takmörkuð. Bankinn bendir á að íslenskir fjárfestar eigi 80 prósent hlutafjár í Kaupþingi og að saga bankans sé ekki vel þekkt á alþjóðavísu. „Við búumst hins vegar við því að áhugi á alþjóðavísu komi til með að aukast þegar fleiri taka að greina fyrirtækið,“ segir í greiningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×