Inga Dóra Ingvarsdóttir, sem tapaði naumlega fyrir Jónasi Erni Helgasyni í úrslitaþætti Meistarans í fyrra, hefur ákveðið að snúa ekki aftur og reyna við titilinn að þessu sinni. Hins vegar mun Erlingur Sigurðarson vera staðráðinn í að gera betur en í fyrra og hyggst koma tvíefldur til baka en hann tapaði einmitt fyrir Ingu Dóru í undanúrslitaþættinum.
Hvorki Jónas Örn né Illugi Jökulsson hafa tekið ákvörðun um hvort þeir vilji reyna aftur fyrir sér en eftir því sem Fréttablaðið kemst næst þá kitlar þátttaka í þættinum þá mikið. Jónas, Inga Dóra, Erlingur og Illugi fengu öll tilboð um sjálfkrafa keppnisrétt í sextán manna hópnum sem keppir um þennan eftirsótta titil og þær fimm milljónir sem í boði eru.
Á fjórða hundrað manns þreytti inntökupróf fyrir spurningaþáttinn Meistarann á fjórum stöðum á landinu á laugardaginn. Þátturinn sjálfur hefur göngu sína í janúar á Stöð 2 undir styrkri stjórn Loga Bergmanns.