Viðskipti innlent

Harma mismunun þjónustugreina

Formenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi sátu fyrir svörum á aðalfundi SVÞ í gær.
Formenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi sátu fyrir svörum á aðalfundi SVÞ í gær. MYND/GVA

SVÞ vilja að endurgreiðsla virðisaukaskatts til stofnana af aðkeyptri þjónustu nái víðar en til upplýsingatækni. Samtökin héldu aðalfund sinn í gær.

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) minna á að enn eru lögð 20 til 25 prósenta vörugjöld á raftæki, hreinlætistæki og byggingavörur og skora á ríkisstjórn og Alþingi að fella þessa löngu úreltu gjaldtöku niður.

Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar samtakanna sem fram fór í gær. Jafnframt vilja samtökin að endurskoðuð verði innheimta vörugjalda af sykri og sætindum því ljóst sé að vörugjöldin ráði ekki neyslu þessara vara. Eins vilja samtökin að uppboð og sala á tollkvótum verði aflögð og þeim úthlutað án verðhækkunaráhrifa, til dæmis með með hlutkesti.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans og varaformaður stjórnar SVÞ, flutti erindi formanns og varaformanns á fundinum.

Í ræðu hans kom fram að samtökin fagni nýrri útvistunarstefnu stjórnvalda en telji þó alls ekki nógu langt gengið. „Grundvallarforsenda fyrir því að útvistunarstefna stjórnvalda gangi upp er að ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki ríkisins fái endurgreiddan virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu til að jafna út samkeppnisstöðu þjónustufyrirtækja og þjónustudeilda opinberra aðila," segir hann en samtökin telja óásættanlegt að einungis sé endurgreiddur virðisaukaskattur af kaupum ríkisfyrirtækja af þjónustu einnar atvinnugreinar sem er tölvu- og hugbúnaðargeirinn. „Erfitt er að átta sig á af hverju þjónustufyrirtækjum er mismunað á þennan hátt."

 

Brynjólfur Bjarnason

Samtökin segja jafnt þurfa yfir alla að ganga og breytingin sem fyrst að ná til allra þjónustufyrirtækja.

Brynjólfur segir þá neikvæðu umræðu sem varð um verslunina í aðdraganda lækkunar virðisaukaskatts og vörugjalda af matvöru þann 1. mars hafa verið mikil vonbrigði. Sérstaklega að embættis- og stjórnmálamenn skyldu hafa „fallið í þá gryfju að sverta með ábyrgðalausu tali og sleggjudómum heila stétt manna" þegar þeir fullyrtu áður en 1. mars rann upp að lækkanir myndu ekki fara lengra en í vasa kaupmanna. Hann segir Hagstofuna hafa staðfest að matvöruverslunin hafi skilað lækkun að fullu til neytanda.

Einnig gagnrýnir hann að færst hafi í vöxt hjá ráðuneytum og Alþingi að reglugerðir og lög séu samin án þess að hagsmunaaðilar fái að koma að málum á vinnslustigi.

Yfirskrift aðalfundarins var „SVÞ og stjórnmálaflokkarnir - eigum við samleið?" og sátu formenn stjórnmálaflokkanna á þingi fyrir svörum í pallborði. Samfylkingin reyndist sá stjórnmálaflokkur sem er oftast er sammála áherslum SVÞ og sjaldnast ósammála, meðan Vinstri grænir eru sjaldnast sammála en oftast óssammála. Fyrir fundinn var formönnum stjórnmálaflokkanna sendar átta spurningar sem hagsmunamál sem SVÞ hafa beitt sér fyrir.

Sjálfstæðisflokkurinn svaraði því einn afdráttarlaust játandi að hefja ætti sölu á léttu víni og öli í almennum verslunum á meðan Framsóknarflokkur, Vinstri grænir og Frjálslyndir leggjast gegn því. Samfylking gaf ekki afgerandi svar við spurningunni, en var eini flokkurinn sem var sammála því að næstu skref til lækkunar matvælaverðs á Íslandi ætti að vera niðurfelling innflutningsverndar á landbúnaðarvörur.

Breyting varð á stjórn SVÞ. Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Samkaupa, var kjörinn nýr inn, en Ingvi I. Ingason, framkvæmdastjóri Rafha, lætur af stjórnarsetu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×