Viðskipti innlent

Gnúpur mun fylgjast með á hliðarlínunni

Magnús Kristinsson og Kristinn Björnsson eru aðaeigendur Gnúps. Þeir eiga hvor um sig 46,5% í félaginu en forstjórinn Þórður Már Jóhannesson á 7%.
Magnús Kristinsson og Kristinn Björnsson eru aðaeigendur Gnúps. Þeir eiga hvor um sig 46,5% í félaginu en forstjórinn Þórður Már Jóhannesson á 7%.

Fjárfestingafélagið Gnúpur, sem er í eigu þeirra Magnúsar Kristinssonar, Kristins Björnssonar og Þórðar Más Jóhannessonar og er sem stendur annar stærsti hluthafi FL Group með 17,5%, mun ekki taka þátt í hlutafjáraukningunni sem fyrirhugað er að kynna seinna í dag. Þetta hefur Vísir eftir áreiðanlegum heimildum innan Gnúps.

Þar með er ljóst að þrír stærstu hluthafar FL Group fyrir utan BG Capital, sem er í eigu Baugs, munu ekki taka þátt í hlutafjáraukningunni. Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Oddaflug, félag Hannesar Smárasonar, og Materia Invest, sem er í eigu Magnúsar Ármanns, Kevins Stanford og Þorsteins M. Jónssonar, myndu heldur ekki taka þátt í hlutafjáraukningunni.

Gnúpur á ekki mann í stjórn félagsins þrátt fyrir stóran hlut og herma heimildir innan Gnúps að þar á bæ haldi menn sig á hliðarlínunni og bíði eftir að staðan í FL Group skýrist.

Ekki náðist í Þórð Má Jóhannesson, forstjóra Gnúps, við vinnslu þessarar fréttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×