Viðskipti innlent

Reiknað með að gengið veikist til ársloka

Greining Glitnis reiknar með að gengi krónunnar muni veikjast fram að áramótum. Spáð er að vísitalan verði að meðaltali 121 stig úr mánuðinn.

Í Morgunkorni Glitnis segir að gengi krónunnar hafi átt undir högg að sækja í núverandi umhverfi lausafjárvanda og þverrandi áhættusækni undanfarnar vikur. Reikna má með því að þetta ástand muni a.m.k. vera viðvarandi út árið.

Í ljósi þess gerir greiningin ráð fyrir að gengi krónunnar lækki í desember. Spáir því að gengisvísitalan standi að meðaltali í 121 þennan síðasta mánuð ársins.

"Við teljum að skilyrði á erlendum fjármálamörkuðum muni áfram ráða þróun gengis krónu þegar kemur fram á nýtt ár. Vandasamt er að tímasetja hvenær dregur úr óvissu vegna lausafjárvandans og áhættusækni fjárfesta fer að aukast á ný," segir í Morgunkorni.

"Við teljum þó að líklegt sé að það eigi sér stað þegar árslokauppgjör stórfyrirtækja verða birt. Meiri upplýsingar munu draga úr óvissunni. Við teljum að í kjölfarið geti gengi krónunnar hækkað. Spáum við því að dollarinn fari lægst í 59 krónur á vormánuðum og evran í tæpar 87 krónur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×