Viðskipti innlent

Evruskráning frestast

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Evrur
Evrur
Ekki verður farin bráðabirgðaleið í skráningu hlutabréfa í evrum í Kauphöll Íslands. Þess í stað á endanleg lausn með aðkomu Seðlabanka Finnlands að vera tilbúin fyrir mitt næsta ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu Verbréfaskráningar Íslands til Kauphallar í gær. Hér er lagaumhverfi túlkað svo að uppgjör með verðbréf megi ekki eiga sér stað nema fyrir tilstilli Seðlabanka Íslands.

Til þess að hann gæti annast slíkt uppgjör í evrum þurfti bankinn fyrirgreiðslu evrubanka sem tryggt gæti honum aðgang að gjaldmiðlinum. Seðlabankinn leitaði til Deutsche Bank um slíka fyrirgreiðslu og hefur um nokkurt skeið verið beðið svars þaðan. Þaðan barst svo í gær afsvar.

„Þessi niðurstaða veldur því að fyrirhuguð bráðabirgðalausn er fallin á tíma. Verðbréfaskráning mun nú einbeita sér að því að innleiða endanlegt fyrirkomulag til uppgjörs á verðbréfaviðskiptum í evrum. Gert er ráð fyrir að það verði tilbúið um mitt næsta ár. Endanleg dagsetning mun liggja fyrir um áramót,“ segir í tilkynningu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins liggur skýringin á áhugaleysi Deutsche Bank helst í því að bráðabirgðalausn sú sem stefnt var að er nokkuð flókin og kallar á töluverða vinnu vegna mikilla öryggiskrafna. Því hafi þeir ekki viljað leggja í svo mikla vinnu við framkvæmdina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×