Viðskipti innlent

Skipt um forstjóra Icelandair

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Forstjórar í tékklandi Jón Karl Ólafsson, fráfarandi forstjóri Icelandair og Icelandair Group, ásamt forstjóra Travel Service í Tékklandi.
Forstjórar í tékklandi Jón Karl Ólafsson, fráfarandi forstjóri Icelandair og Icelandair Group, ásamt forstjóra Travel Service í Tékklandi. Fréttablaðið/ÓKÁ
Jón Karl Ólafsson lætur af störfum bæði sem forstjóri Icelandair Group og dótturfélagsins Icelandair.

Við starfi forstjóra Icelandair Group tekur, samkvæmt heimildum blaðsins, Björgólfur Jóhannsson, en hann hefur til þessa gegnt starfi forstjóra matvælafyrirtækisins Icelandic Group sem starfar í sjávarútvegi. Áður gegndi Björgólfur starfi forstjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, auk þess sem hann er stjórnarformaður Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ). Ekki hefur verið ráðið í starf forstjóra dótturfélagsins Icelandair.

Ástæða starfsloka Jóns Karls er rakin til ákvörðunar sem tekin var hjá félaginu í sumar um að skipta forstjórastarfinu í tvennt, þar sem einn væri settur yfir móðurfélagið og annar yfir dótturfélagið Icelandair. Þannig hafi Jón Karl leitt félagið í gegn um umbreytinga- og vaxtaferli, en nú hafi menn orðið ásáttir um að leiðir skildu. Á þessu ári hafa verið nokkrar hræringar í eignarhaldi Icelandair Group, en rétt tæpt ár er síðan félagið var skráð á markað í Kauphöll Íslands.

Forsvarsmenn Icelandair vildu í gær ekki tjá sig um þróun mála. Þá náðist ekki í Jón Karl, sem sagður er vera í útlöndum.

Samkvæmt heimildum blaðsins var í gær unnið að gerð tilkynninga til Kauphallar um mannabreytingar bæði hjá Icelandair Group og Icelandic Group.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×