Viðskipti innlent

Forstjóri SPRON ánægður með fyrsta daginn í kauphöllinni

Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON. MYND/365

Forstjóri SPRON segist vera ánægður með fyrsta dag sjóðsins í kauphöllinni. Hann segist ekki hafa áhyggjur af því þótt hlutabréf í sjóðnum hafi fallið um rúm 11 prósent frá opnun markaðar til lokunar.

„Það er algengt að verð sveiflist með þessum hætti," sagði Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, í samtali við Vísi. „Markaðurinn ákveður verðmæti hlutabréfa og þessi sveifla í dag veldur ekki áhyggjum. Aðalatriðið er að við erum búnir að skrá bréfin í Kauphöllinni."

Hlutbréf í SPRON stóðu í 18,9 á hlut við opnun markaðar í morgun en við lokun var gengið komið í 16,7 á hlut. Féllu bréfin því um rúm 11 prósent í verði á fyrsta degi. Viðskipti með hlutabréf í SPRON voru hins vegar lífleg eða rúmlega 300 talsins en alls námu þau tæpum milljarði króna.

Guðmundur segist vera ánægður með þau miklu viðskipti sem voru með bréf SPRON. „Það voru ágæt viðskipti með bréfin og við erum mjög ánægðir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×