Viðskipti innlent

Mjólkurverð hækkar vegna verðhækkana á aðföngum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hækkunarþörf heildsöluverðs mjólkur skýrist á allra næstu dögum þegar í ljós kemur hversu mikið áburður hækkar, segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda. Hann segir mjólkina kunna að hækka um 15 til 20 prósent í heildsölu um áramót.

Ákvörðun um hækkun tekur verðlagsnefnd búvara, svokölluð sexmannanefnd. Í fyrrahaust var liður af aðgerðum ríkisins til að stuðla að lágu matarverði hér að festa heildsöluverð mjólkur, sem þá hafði ekki hækkað í heilt ár á undan.

„Við tókum á okkur verðstöðvun og hún gildir til næstu áramóta. Hins vegar er alveg ljóst að við getum ekki tekið á okkur óbreytt verð í lengri tíma en það, því verð á aðföngum er að rjúka upp úr öllu valdi," segir Baldur Helgi og vísar meðal annars til þess að verð á kjarnfóðri hafi hækkað um tugi prósenta.

„Áburðarverð skýrist svo á allra næstu dögum, en það verður líklega mjög svipað." Baldur segir verð á mjólkurvörum hafa hækkað á heimsmarkaði, fyrst og fremst verð á vörum þar sem mjólk er hráefni. Um leið hefur framleiðsla aukist erlendis og það hafi áhrif á verð aðfanga til framleiðslunnar. „Við hækkum ekki mjólkurverð hér bara af því það hefur hækkað annars staðar heldur vegna þess að tilkostnaður hefur aukist."

Auk þess sem kostnaður við mjólkurframleiðslu sé að aukast segir Baldur Helgi stýrivexti hér farna að bíta bændur líkt og aðra. „Mjólkurframleiðsla er orðin mjög fjármagnsfrekur rekstur. Við skuldum einhverja 25 milljarða. Hvert prósentustig í vöxtum samsvarar tveimur krónum á lítrann. Okkur skiptir því ekki litlu máli að Seðlabankinn fari að slaka á klónni, hvenær í ósköpunum sem það nú gerist."

 

Heildsöluverð á mjólk hefur verið óbreytt í nokkurn tíma sem liður í opinberum aðgerðum til að lækka hér matvælaverð. Um áramót er útlit fyrir að þar verði breyting á. Markaðurinn/Pjetur
Aukin skuldsetning í bændastétt segir Baldur Helgi að stórum hluta til komna vegna mikillar uppbyggingar og endurnýjunar sem bændur hafi ráðist í við mjólkurframleiðsluna síðustu ár.

Hann segir hins vegar erfitt að setja tölu á hækkunarþörf mjólkur í heildsölu fyrr en allir kostnaðarþættir liggi fyrir.

„Áburðurinn er nokkuð stór þáttur í þessu. Þokkalegt bú kaupir áburð fyrir milljón og ef hann hækkar um 20 prósent er þar strax komin króna á lítra. Hins vegar eru komnar sögur á kreik um að hækkunin verði veruleg. Og gangi það eftir erum við að tala um 10, 15 til 20 prósent."

Áburðarverð segir Baldur detta inn í mánuðinum, því alla jafna sé í boði afsláttur frá listaverði festi bændur pantanir fyrir fyrsta desember. „Síðan smáminnkar afslátturinn um hver mánaðamót fram í maí þegar afslátturinn er enginn og kominn sá tími að menn þurfi að nota áburðinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×