Viðskipti innlent

Verðbólgan eykst

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á bensínstöð Verð á 95 oktana bensíni hækkaði að jafnaði um 2,09 prósent milli október og nóvember samkvæmt mælingu Hagstofunnar.
Á bensínstöð Verð á 95 oktana bensíni hækkaði að jafnaði um 2,09 prósent milli október og nóvember samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Fréttablaðið/Valli
Verðbólga mælist 5,2 prósent miðað við síðustu tólf mánuði. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs um 0,65 prósent milli október og nóvember.

Sé húsnæðisliðurinn tekinn út nemur verðbólgan undanfarið ár hins vegar 1,9 prósentum.

Verðbólga er heldur meiri en greiningardeildir banka höfðu gert ráð fyrir og segir í sérefni greiningardeildar Kaupþings að líkur hafi heldur aukist á að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti enn frekar á aukavaxtaákvörðunardegi 20. desember næstkomandi.

Aukin verðbólga er að mestu rakin til hækkunar á verði íbúðarhúsnæðis og á verði eldsneytis. Litið fram hjá skattalækkun fyrr á árinu nemur ársverðbólga 7,0 prósentum samkvæmt fastskattavísitölu. „Við eigum von á að ársverðbólgan aukist enn frekar í desember og muni vera yfir 5 prósentum á fyrstu mánuðum næsta árs,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Glitnis.

Fram kemur að húsnæðisverð hafi hækkað um 1,5 prósent milli mánaða, þar af íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni mest um 2,53 prósent og eignir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu 1,37 prósent. Greiningardeild Glitnis telur að hækkun vaxta húsnæðislána komi til með að ná að slá á húsnæðismarkaðinn.

„Sú vaxtahækkun á íbúðarhúsnæðislánum sem þegar hefur komið til er á lánum viðskiptabankanna en vextir á erlendum lánum hafa einnig hækkað töluvert vegna aukins áhættuálags vaxta á heimsvísu og erfiðleika á erlendum fjármálamörkuðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×