Viðskipti innlent

Vonbrigði með samþættingu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hörður Arnar­son, forstjóri Marel Food Systems, kynnti uppgjör félagsins fjárfestum og greinendum á fundi í gærmorgun.
Hörður Arnar­son, forstjóri Marel Food Systems, kynnti uppgjör félagsins fjárfestum og greinendum á fundi í gærmorgun. Fréttablaðið/GVA
Marel Food Systems væntir þess að sjá ábata vegna fyrirtækjakaupa í næsta uppgjöri. Hörður Arnarson, forstjóri félagsins, segir hins vegar ákveðin vonbrigði að ávinningur af samþættingu við AEW Delford og Scan­vaegt skuli ekki hafa komið fram á þriðja ársfjórðungi líkt og vænst hafi verið. Hann kynnti árshlutauppgjör félagsins í gærmorgun.

Á þriðja ársfjórðungi nemur bókfært tap Marel Food Systems 5,7 milljónum evra eftir skatta, eða tæpum 500 milljónum króna. Í tapi fjórðungsins vegur þungt reiknað tap vegna lækkunar á bréfum í iðnsamstæðunni Stork í Hollandi. Marel á hlut í eignarhaldsfélaginu LME sem á 43 prósent í Stork. Í gangi eru viðræður um sameiningu Marel Food Systems og Stork Food Systems, samhliða viðræðum um kaup breska fjárfestingasjóðsins Candover á því sem eftir stendur í Stork. Hörður segist vonast eftir niðurstöðu í þeim viðræðum innan nokkurra vikna, en bætir við að ekki sé hægt að gefa sér að þær endi með samruna félaganna.

„Innri vöxtur er lægri en við stefndum að, en í fullu samræmi við það sem gerist þegar menn eru í stórum yfirtökum," segir Hörður jafnframt, en velta félagsins hefur engu að síður aukist um 54 prósent milli ára. Þá hefur, að sögn Harðar, veik staða Bandaríkjadals áhrif á vaxtatölur í Bandaríkjunum, þar sem félagið gerir upp í evrum. „En í mótteknum pöntunum hefur verkefnastaðan batnað umtalsvert og er í samræmi við okkar áætlanir," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×