Viðskipti innlent

Peningastefna Seðla­banka tekin að bíta

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, er í forgrunni en svo koma forstöðumenn greiningardeilda, Ásgeir Jónsson hjá Kaupþingi, Ingólfur Bender hjá Glitni og Björn Rúnar Guðmundsson hjá Landsbankanum.
Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, er í forgrunni en svo koma forstöðumenn greiningardeilda, Ásgeir Jónsson hjá Kaupþingi, Ingólfur Bender hjá Glitni og Björn Rúnar Guðmundsson hjá Landsbankanum. Markaðurinn/Anton
Stýrivaxtahækkun Seðlabankans upp á 45 prósentustig kom greiningardeildum bankanna á óvart. Þær hafa nú endurskoðað hagspár sínar í ljósi breyttra aðstæðna. Kaupþing telur von á meiri hækkun vaxta á aukavaxtaákvörðunardegi Seðlabankans 20. desember næstkomandi. En greiningardeildir Glitnis og Landsbankans telja vexti ekki munu hækka meira, þótt Glitnir telji ekki hægt að útiloka frekari hækkun. Allir segja bankarnir ljóst að stýrivextir verði hærri næstu misseri en spáð hefur verið.

Kaupþing segir kjarasamninga og nýja stóriðju verða til þess að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 50 punkta til viðbótar í desember. „Þannig mun bankinn leggja síðbúna 95 refsipunkta á efnahagslífið í þessari stuttu vaxtahækkunarlotu,“ segir í spá bankans. Vísað er til þess að „gífurlegur“ þrýstingur sé á launahækkanir meðal almennra félagsmanna í verkalýðsfélögum. „Afkoma ríkisins er betri en áður var talið sem eykur svigrúm þess til aðgerða sem liðka til fyrir samningum en skapa um leið þenslu. Aukinheldur er líklegt að brátt verði tilkynnt um frekari stóriðjuframkvæmdir sem mun færa verðbólguspár Seðlabankans til verri vegar,“ segir í spánni.

Björn Rúnar Guðmundsson, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segist telja að á næsta ári skapist tiltölulega hratt forsendur fyrir vaxtalækkun. „Við spáum lækkandi verði á fasteignamarkaði á næsta ári,“ segir hann og kveður stýrivaxtahækkun Seðlabankans nú ýta undir þá þróun og flýta því ferli sem Landsbankinn hafi spáð á fasteignamarkaði, enda óhagstæðara að taka lán en áður. „Að þessu leytinu er peningastefnan farin að virka og þar með teljum við að svigrúmið til að gefa aðeins eftir sé til staðar. En þetta breytir því hins vegar ekki að við horfum á meiri kraft í hagkerfinu en Seðlabankinn reiknar með. Það gerir að verkum að við förum í okkar spá ekki jafnlangt, eða hratt, niður og þeir gera í sinni spá.“

Greiningardeildirnar segja hærri stýrivexti ýta undir hærra gengi krónunnar til skemmri tíma, en á móti komi þar viðvarandi órói á erlendum fjármálamörkuðum. Í spá Glitnis er þannig talið að krónan gefi ekki eftir fyrr en um miðbik næsta árs og að í lok næsta árs verði gengisvísitalan í 122 stigum, evra í 91 krónu og Bandaríkjadalur í 64 krónum. „Við gerum svo ráð fyrir hægfara styrkingu krónu á árinu 2009. Þar munu togast á lækkandi vextir, þótt við teljum að þeir verði enn fremur háir, og svo hins vegar að næsta hagvaxtarskeið verður skammt undan, og þar með væntingar um að vextir taki að hækka að nýju í upphafi næsta áratugar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×