Viðskipti innlent

Kaupþing gerir ráð fyrir 50 punkta stýrivaxtahækkun fyrir jólin

Óli Kristján Ármannsson skrifar
VAxtaákvörðun kynnt Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 45 punkta í byrjun mánaðarins og eru þeir því 14,75 prósent um þessar mundir. Kaupþing spáir frekari hækkun í næsta mánuði.
VAxtaákvörðun kynnt Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 45 punkta í byrjun mánaðarins og eru þeir því 14,75 prósent um þessar mundir. Kaupþing spáir frekari hækkun í næsta mánuði. Fréttablaðið/GVA
Kjarasamningar og ný stóriðja verða til þess að Seðlabanki Íslands hækkar stýrivexti um 50 punkta á aukavaxtaákvörðunardegi 20. desember næstkomandi, að því er fram kemur í nýrri stýrivaxtaspá greiningardeildar Kaupþings.

„Þannig mun bankinn leggja síðbúna 95 refsipunkta á efnahagslífið í þessari stuttu vaxtahækkunarlotu," segir í spánni, en um leið sleginn sá varnagli að hækkunin gæti dregist fram á næsta ár verði ekki útséð með samningana eða stóriðjuna fyrir vaxtaákvörðunardaginn.

Greiningardeildin bendir á að þegar Seðlabankinn hækkaði vexti fyrir helgi hafi hann gefið fyrirheit um frekari vaxtahækkun og tafar á lækkun vaxta ef kjarasamningar leiddu til óhóflegra launahækkana. Jafnframt segir í spánni ráð fyrir því gert að áhyggjur Seðlabankans miði einnig að félagsmálapökkum og/eða skattalækkunum af hálfu ríkisins í tengslum við kjarasamningana.

Áhyggjur Seðlabankans eiga að mati greiningardeildarinnar við rök að styðjast, þar sem þrýstingur á launahækkanir sé „gífurlegur" meðal almennra félagsmanna í verkalýðsfélögum. „Afkoma ríkisins er betri en áður var talið sem eykur svigrúm þess til aðgerða sem liðka til fyrir samningum en skapa um leið þenslu. Aukinheldur er líklegt að brátt verði tilkynnt um frekari stóriðjuframkvæmdir sem mun færa verðbólguspár Seðlabankans til verri vegar," segir í spánni.

Þegar líður á næsta ár býst greiningardeild Kaupþings við að aðgerðir Seðlabankans skili árangri, meðal annars með kólnun húsnæðismarkaða. Upphafi vaxtalækkunarferlis Seðlabankans er spáð undir lok næsta árs. „Hins vegar verða lækkanirnar mun hægari en spár Seðlabankans benda til," segir bankinn og koma þar helst til áhrif af stóriðjuframkvæmdum sem Seðlabankinn gerir ekki ráð fyrir í eigin spám.

„Auk þessa telur Greiningardeild hættu á að opinberir aðilar muni kynda undir þenslu á næstunni, til dæmis með opinberum framkvæmdum og lægri álögum á almenning."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×