Viðskipti innlent

Fá ekki að vita um fjárfestingu eigin félags

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Stjórn og stjórnendur Existu á ársfundi félagsins fyrr á þessu ári. Greiningardeild Glitnis mælir með kaupum í félaginu enda hafi uppgjör verið yfir væntingum og telur að bréf þess muni hækka um 12 prósent næstu sex mánuði.
Stjórn og stjórnendur Existu á ársfundi félagsins fyrr á þessu ári. Greiningardeild Glitnis mælir með kaupum í félaginu enda hafi uppgjör verið yfir væntingum og telur að bréf þess muni hækka um 12 prósent næstu sex mánuði. Markaðurinn/Valli
Hluthafar Existu fá ekki að vita hvað stendur að baki óskráðri eign félagsins í Austur-Evrópu. Meðalspá greiningardeilda gerði ráð fyrir miklu tapi á síðasta ársfjórðungi. Endurmat á eigninni hífir félagið yfir núllið.

Hluthafar sem leitað hafa skýringa hjá Exista varðandi uppfærslu á verði óskráðrar fjárfestingar félagsins í Austur-Evrópu hafa fengið þau svör að þær verði ekki gefnar upp. Utanaðkomandi félag er sagt hafa annast verðmatið, en ekki fæst heldur upp gefið hvaða fyrirtæki annaðist það.

Exista skilaði um 7,4 milljóna evra hagnaði á þriðja fjórðungi, eða um 644 milljónum króna, en meðalspá greiningardeilda bankanna hljóðaði upp á ríflega 120 milljóna evra tap á fjórðungnum, eða sem svarar tæplega 10,5 milljörðum króna.

Á kynningarfundi vegna árshlutauppgjörsins sagði Lýður Guðmundsson stjórnarformaður félagsins að af samkeppnisástæðum væri ekki hægt að gefa frekari upplýsingar um fjárfestinguna sem um ræðir, en ráðist hafi verið í hana með bankanum Lehmann Brothers fyrir einu og hálfu ári síðan.

Í umfjöllun greiningardeildar Glitnis um uppgjörið er sagt „athyglisvert" að ekki fáist nánari upplýsingar. „Þessi uppfærsla varð til þess að Exista skilaði hagnaði í fjórðungnum og kom okkur á óvart," segir þar.

Hjá Existu fást þær upplýsingar að félagið haldi sig við fyrri ákvarðanir um upplýsingagjöf varðandi þessa fjárfestingu. Vitað sé að félagið sé með í gangi á hverju tíma margvíslegar fjárfestingar án þess að frá þeim sé greint sérstaklega. Að sama skapi er óvíst að upplýst verði frekar um þessa fjárfestingu í næsta ársreikningi félagsins.

Þá eru fyrir því fordæmi í rekstri Existu að af samkeppnisástæðum sé ekki greint frá stórum fjárfestingum. Þannig var ekki greint frá kaupum á hlutabréfum í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo Group fyrr en þau uppkaup höfðu náð ákveðinni stærð.

Þrír lífeyrissjóðir eru meðal 20 stærstu hluthafa Existu. Innan eigastýringadeilda lífeyrissjóða sem blaðið hafði samband við var ekki miklum áhyggjum lýst af skorti á upplýsingum af fjárfestingu félagsins í A-Evrópu. Þó taldi yfirmaður einnar deildar sérstakt að skráð félag skuli ekki upplýsa betur um fjárfestingar sínar. Ekki er vitað til þess að sjóðirnir hafi leitað eftir frekari upplýsingum hjá félaginu en fram komu á kynningarfundi vegna árshlutauppgjörsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×