Viðskipti innlent

Evran er óráð í þensluástandi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ásgeir Jónsson Ásgeir, sem er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir einhliða upptöku evru hagfræðilega álitlega leið, en trúlega ófæra af pólitískum sökum.
Ásgeir Jónsson Ásgeir, sem er forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir einhliða upptöku evru hagfræðilega álitlega leið, en trúlega ófæra af pólitískum sökum. Fréttablaðið/GVA
„Einhliða upptaka evru er fremur einfalt mál,“ segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Hann segir hins vegar að algjört óráð væri að skipta yfir í evru í því þensluástandi sem hér ríkir nú, enda væri það svipað og skvetta olíu á eld.

Eins segir Ásgeir að hér þurfi að ríkja sátt um slíka aðgerð, auk þess sem evra verði tæpast tekin upp í andstöðu við Evrópusambandið og Myntbandalag Evrópu.

„Einungis þyrfti að taka peningaframboðið, svokallað grunnfé Seðlabankans og skipta yfir í evrur. Svo myndi ríkið verða af tekjum af myntsláttu upp á sex til tíu milljarða á ári,“ segir Ásgeir.

„Þá þarf að tryggja að fjármálastofnanir geti sótt sér lausafé á evrópskan millibankamarkað eða til Evrópska seðlabankans,“ segir hann en telur stóru bankana vel færa um að sækja sér rekstrarfé nú þegar, þótt minni bankar gætu lent í erfiðleikum.

Ásgeir segir hins vegar erfitt að meta heildarkostnað eða ávinning af breytingunni og vísar þar til þess að enginn hafi til dæmis getað séð fyrir gríðarlegan ávinning af inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið. Um leið segir hann ljóst að við einhliða upptöku evru fengist þegar nánast allur ávinningur sem fylgja myndi upptöku með Evrópusambandsaðild.

„Þetta er fremur augljós kostur og getur ekki talist álitshnekkir í augum útlendinga, sem alla jafna furða sig á að við höldum hér úti sjálfstæðum gjaldmiðli á einu minnsta myntsvæði í heimi, í útjaðri eins þess stærsta.“

Ásgeir segir kostnaðinn hins vegar aðallega felast í fórn peningalegs sjálfstæðis sem varhugavert geti verið að vanmeta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×