Viðskipti innlent

Stoðir eignast Keops

Íslenska fasteignafélagið Stoðir Group hefur tryggt sér 96,7 prósent hlutabréfa í stærsta fasteignafélagi Danmerkur á markaði, Keops, eftir því sem segir í tilkynningu frá Keops. Stoðir gerðu tilboð í félagið fyrr í sumar og var hluthöfum í Keops boðið 24 danskar krónur á hlut í félaginu eða hlutabréf í Stoðum.

Forsvarsmenn Stoða hyggjast tryggja sér afganginn af bréfum félagsins og hafa farið fram á aukaaðalfund til þess að sækjast eftir leyfi til að skrá félagið af markaði í Kaupmannahöfn.

Haft er eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni, forstjóra Stoða, að forsvarsmenn Stoða séu ánægðir með niðurstöðuna. „Þetta er stórt skref í átt að því markmiði okkar að verða leiðandi fasteignafélag á Norðurlöndum," segir Skarphéðinn.

Heildareignir Stoða með kaupunum verða um 32,5 milljarðar danskra króna, sem er jafnvirði um 350 milljarða íslenskra króna, en eignir félagsins er að finna hér á landi, í Danmörku og Svíþjóð.

Baugur, sem er einn aðaleigandi Stoða, var einnig einn aðaleigenda Keops fyrir kaupin. Átti Baugur um þriðjungshlut í Keops og þá var Fons, eingarhaldsfélag Pálma Haraldssonar, einnig með þriðjungshlut. Fons ákvað í sumar að selja hlut sinn til Stoða og höfðu Stoðir því tryggt sér 60 prósent hlutafjár fyrr í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×