Viðskipti innlent

Hlutabréf Promens verða skráð í evrum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Promens, kynnir kaupin á norsku iðnsamstæðunni Polimoon Group á blaðamannafundi í byrjun þessa árs. Markaðurinn/Heiða
Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Promens, kynnir kaupin á norsku iðnsamstæðunni Polimoon Group á blaðamannafundi í byrjun þessa árs. Markaðurinn/Heiða
Hlutabréf iðnfyrirtækisins Promens, dótturfélags Atorku, verða skráð í evrum, að sögn Ragnhildar Geirsdóttur, forstjóra fyrirtækisins. Stefnt er að skráningu í OMX Kauphöll Íslands.

„Langstærstur hluti af okkar rekstri er í evrum og á evrusvæði. Við stefnum því að skráningu í evrum og vonandi verða ekki á því vandkvæði á næsta ári,“ segir Ragnhildur. Hún segir skipta miklu gagnvart bæði erlendum fjárfestum og stjórnendum sem hlut eiga í félaginu að bréfin verði skráð í evrum. „Það ræður náttúrlega enginn yfir gengi krónunnar og tenging við hana myndi verða til vandkvæða.“

Af um 6.000 starfsmönnum Promens og 64 verksmiðjum sem eru í 22 löndum starfa innan við hundrað manns hér á landi í tveimur verksmiðjum. Annars vegar er það á Dalvík, þar sem rætur Promens liggja í Sæplasti, og í frauðplastverksmiðju Tempru í Hafnarfirði. Promens er með stærstu fyrir­tækjum Evrópu í plastiðnaði.

Í sumar kynnti Promens nýtt skipurit þar sem öll félögin innan samstæðunnar eru rekin saman. Frá og með 1. nóvember næstkomandi verða svo félögin öll rekin undir nafni Promens. Félagið hefur stækkað gífurlega á einu ári, en stærsta stökkið var tekið í desember í fyrra með kaupunum á norska félaginu Polimoon Group sem skráð var í kauphöllina í Ósló, en Polimoon var fjórum sinnum stærra félag en Promens. Félagið var svo í kjölfarið skráð úr kauphöllinni.

Á þessu ári hefur Promens svo bætt við sig þremur félögum sem öll sérhæfa sig í snyrtivöruumbúðum; strax í byrjun árs í Rússlandi, í félagi sem sérhæfir sig í snyrtivöruumbúðum, um mitt ár var svo keypt félag í Frakklandi og nú síðast var yfirtekin framleiðslueining spænska fyrirtækisins STE.

Ragnhildur segir stefnt að áframhaldandi ytri vexti félagsins. „Við horfum til smærri og millistórra fyrirtækja í þeim efnum,“ segir hún, en kveður um leið ekki tímabært að upplýsa frekar um gang þeirra mála. Ragnhildur segir tækifærin þó ekki vanta því í plastiðnaði séu mörg smærri fyrirtæki og tækifærin því nánast óþrjótandi. „En við kaupum náttúrlega ekki hvaða félag sem er, þau verða að passa inn í áætlanir okkar.“ Ragnhildur segist ekki reikna með að fyrirætlanir um frekari vöxt Promens trufli skráningu í Kauphöllina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×