Viðskipti innlent

SPRON komið yfir hagnað síðasta árs

SPRON var rekinn með 10,1 milljarðs króna hagnaði á fyrri hluta ársins sem er tæplega fjórfalt meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra. Þetta er metafkoma en til samanburðar nam hagnaður sparisjóðsins, sem varð hlutafélag á dögunum, níu milljörðum króna allt árið 2006.

Arðsemi eigin fjár var 63,8 prósent á ársgrundvelli.

Hreinar rekstrartekjur SPRON voru tæpir fimmtán milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins sem er nærri þreföldun frá fyrra ári. Sem fyrr vógu fjárfestingar SPRON þungt á metunum. Tekjur af hlutabréfaeign og hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga voru um 13,3 milljarðar. SPRON er stór hluthafi með beinum og óbeinum hætti í Existu en hlutabréf þess félags hækkuðu um 52 prósent á fyrri hluta ársins. Sparisjóðurinn er einnig stór hluthafi í Icebank sem hagnaðist ríflega á tímabilinu og þá skilaði dótturfélagið Frjálsi Fjárfestingarbankinn rúmum einum milljarði króna í hagnað.

Hreinar vaxtatekjur voru um 1,1 milljarður og vekur athygli að þær drógust saman um þriðjung. Vaxtamunur sparisjóðsins var 1,1 prósent á móti 2,5 prósentum árið áður en hafa ber í huga að stór hluti af eignum er bundinn í eignum sem mynda annars konar tekjur en vaxtatekjur.

Rekstrarkostnaður fór úr 1,8 milljörðum í 2,5 milljarða sem var um 41 prósents aukning. Launakostnaður, sem var um helmingur kostnaðar, jókst um tæp 38 prósent Kostnaðarhlutfall SPRON var ekki nema 16,7 prósent.

Heildareignir fjármálafyrirtækisins voru komnar í 208,5 milljarða króna í lok júní og höfðu aukist um þrettán prósent á árinu. Eigið fé nam þá 35,9 milljörðum og hækkaði um 3,4 prósent. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 13,6 prósent en eiginfjárþáttur A um 29 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×