Viðskipti innlent

Silfrið hvarf úr landi á þjóðveldisöld

Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.
Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir að mörgu þurfa að hyggja í tengslum við vangaveltur um að taka hér einhliða upp evru, málið sé langt því frá einfalt.

„Til dæmis yrði að leysa vandamál eins og lánveitingar til þrautavara en þar sem aðili með seðlaprentunarvald er ekki lengur til staðar yrði að tryggja lausafjárstöðu bankastofnana með öðrum hætti, svo sem með sérstökum sjóði eða lánalínum á vegum ríkisvaldsins. Ríkið yrði einnig að kaupa upp íslensku myntina og erfitt er að átta sig á hvað það væri nákvæmlega mikill peningur.

Ef málið snýst aðeins um að kaupa út raunverulega seðlaprentun eða grunnfé Seðlabankans veltur fjárhæðin á um 60 til 70 milljörðum króna sem er raunar helmingi lægri fjárhæð en gjaldeyrisvarasjóður landsins. Hins vegar má velta fyrir sér hvort það sé nægjanleg fjárhæð og hvort allar innistæður bankastofnana myndu sjálfkrafa snúast yfir í evrur með trúverðugum hætti. Í þessu sambandi má minna á að lausafé almennings í íslenskum krónum á reikningum bankastofnana, það er M1, telur um 200 til 300 milljarða og heildarinnistæður til skemmri tíma en tveggja ára í íslenskum krónum, það er M3, eru 1.000 milljarðar. Þessar upphæðir þarf vitaskuld ekki að kaupa yfir í evrur.“

Ásgeir áréttar hins vegar að peningaframboð í landinu yrði utanaðkomandi og að einhver yrði að tryggja stöðugleika í lausafjárstöðu fjármálakerfisins, til dæmis vega á móti viðskiptahalla eða öðru útflæði út úr fjármálakerfinu. „Hægt er að sjá fyrir sér myntsvæði sem stöðuvatn með rennsli til og frá þar sem vatnsyfirborð verður að haldast stöðugt svo lífríkið standi í jafnvægi,“ segir hann en vill þó ekki útiloka að hægt yrði að fara þessa leið. „Málið er þó dálítið flókið því verið er að ræða um peningamargfaldara, bankakerfið, og samspil þess við ríkið. En í öllu falli er þetta mjög áhugavert sem fræðileg vangavelta.“

Ásgeir segir hins vegar ljóst að evruaðild væri miklu betri kostur því annars væri þetta líkt og að ákveða við upphaf ferðalags að elta einhvern gönguhóp óboðinn. „Maður nýtur kannski góðs af samfylgdinni, en fær maður í hópnum þann stuðning sem maður þarf raunverulega á að halda?“

Ásgeir bendir á að við upphaf landnáms hér hafi silfur verið notað sem gjaldmiðill í viðskiptum líkt og í Skandínavíu og töluvert af því virðist hafa borist hingað með landnemunum. „En af einhverjum ástæðum rann silfrið úr landi, kannski vegna viðskiptahalla, og þar sem silfur er ekki vinnanlegt hérlendis hurfu landsmenn að því ráði að nota greiðslumiðla á borð við fisk eða álnavöru í staðinn. Íslenskt fjármálakerfi er öllu flóknara nú en á þjóðveldistímanum en þessi dæmisaga sýnir vel að þörf verður á því fyrir opinbera aðila að hafa afskipti af peningaframboði þrátt fyrir að evran yrði tekinn upp sem lögeyrir hér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×