Skoðun

Þannig er laganna hljóðan

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Þorsteinn Pálsson gerir ummæli mín um hugmyndir um olíuhreinsistöð að umfjöllunarefni í ritstjórnargrein 22. ágúst sl. Þar sér hann ástæðu til að taka nýjan umhverfisráðherra í kennslustund í stjórnsýslufræðum og segir m.a.: „Hlutverk stjórnvalda er að sjá um að farið sé að lögbundnum leikreglum. Í regluverki og hugmyndaheimi liðins tíma gátu stjórnvöld fyrir fram gert sumar hugmyndir að gæluverkefnu en lagt stein í götu annarra. Nokkuð eimir eftir af þessum gamla tíðaranda í yfirlýsingum umhverfisráðherra.“

Lögunum fylgtEkki fæ ég skilið hvaða yfirlýsingar mínar gefa ritstjóranum tilefni til að draga þá ályktun að umhverfisráðherra vilji ekki fylgja lögum landsins. Aðspurð hef ég greint frá því að ríkisvaldið stöðvi ekki framkvæmdir sem uppfylla skilyrði laga, m.a. þau sem lúta að útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ég hef hins vegar ekki leynt þeirri skoðun minni að mér líst illa á að reisa olíuhreinsistöð hér á landi. Ekki þekki ég þann lagabókstaf sem bannar ráðherrum að hafa skoðun á málefnum lands og þjóðar. Kannski ritstjórinn viti betur.

Skammt á veg komiðAð öðru leyti hef ég í umræðum um olíuhreinsistöð lagt áherslu á að málið sé komið mjög skammt á veg þrátt fyrir að umræða í fjölmiðlum bendi til annars. Því hefur verið haldið fram að framkvæmdir við olíuhreinsunarstöð geti hafist næsta sumar og að í kjölfarið muni 500 ný störf skapast á Vestfjörðum.

Allir sem eitthvað hafa kynnt sér málið vita að framundan er langt ferli sem leiða mun í ljós hagkvæmni og áhrif slíkrar framkvæmdar á umhverfið. Þá eiga hugmyndasmiðir olíuhreinsistöðvar eftir að sækja um losunarheimildir til úthlutunarnefndar en í landinu gilda lög um losun gróðurhúsalofttegunda sem eiga að tryggja að hún verði ekki meiri en alþjóðlegar skuldbindingar Íslands leyfa. Skoðanir einstakra stjórnmálamanna á olíuhreinsistöðvum, þar á meðal mínar, hafa engin áhrif á þær alþjóðlegu skuldbindingar íslenska ríkisins.

Höfundur er umhverfisráðherra.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×