Viðskipti innlent

Kaupir stærstu Toyotasölu Dana

Magnús Kristinsson, eigandi Toyota á Íslandi, handsalar við Kresten Krogaard-Jensen kaup á umsvifamesta söluaðila Toyota-bíla í Danmörku.
Magnús Kristinsson, eigandi Toyota á Íslandi, handsalar við Kresten Krogaard-Jensen kaup á umsvifamesta söluaðila Toyota-bíla í Danmörku.

Magnús Kristinsson og Kresten Krogsgard-Jensen skrifuðu í gær undir samning þess efnis að M. Kristinsson Danmark A/S, félag Magnúsar, keypti 80 prósenta hlut í danska fyrirtækinu Krogsgaard-Jensen. Magnús er eigandi Toyota á Íslandi og Krogsgaard-Jensen stærsti söluaðili Toyota í Danmörku.

Kaupverð fyrirtækisins er sagt trúnaðarmál, en Straumur Danmark hafði milligöngu um viðskiptin og Landsbanki Íslands sá um fjármögnun.

Fram kemur í tilkynningu að Krogsgaard hafi í fyrra selt um 1.560 nýja bíla, eða átta prósent af nýskráðum Toyota-bifreiðum í Danmörku. Til samanburðar seldi Toyota á Íslandi 5.285 nýja bíla á síðasta ári.

Hér er fjórði hver nýr bíll Toyota og segir Magnús hollt að setja markið hátt og stefna á viðlíka árangur ytra. Hann segir þó ólíku saman að jafna í samkeppni þar því 30 fyrirtæki selji Toyota-bíla á um 70 sölustððvum.

Nokkuð er einnig í land í vinsældum Toyota í Danmörku því þar er tíundi hver nýr bíll þeirrar tegundar. „En við sjáum hér mörg spennandi tækifæri til að nýta þekkingu og reynslu sem til hefur orðið hjá Toyota á Íslandi," segir Magnús.

Krogsgaard-Jensen er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem hefur selt Dönum bíla í þrjár kynslóðir. Það státar af fimm útsölustöðum og þjónustustöðvum á Kaupmannahafnarsvæðinu og er þar af leiðandi stærst og umsvifamest af þeim fyrirtækjum sem selja Toyota-bifreiðar í Danmörku. Velta Krogsgaard nam um 5 milljörðum íslenskra króna í fyrra og eru starfsmenn sagðir vera um 130 talsins.

Magnús segir mikið gleðiefni að hafa lokið kaupunum, en samningsferlið hafi verið bæði langt og strangt, enda töluverðar tilfinningar í spilunum þegar gróin fjölskyldufyrirtæki eru seld. „Menn þurfa tíma til að átta sig á hlutunum við slíkar aðstæður," segir hann og kveðst til að mynda hafa frestað fundum með stjórnendum þangað til í næstu viku.

Með í kaupunum á 80 prósenta hlutnum í danska fyrirtækinu fylgja sýningarsalir, verkstæði og lagerar. Þá eignast fyrirtæki Magnúsar 100 prósent í fasteignafélagi KKJ Ejendommen, og fasteignum sem eru í eigu Krogsgaard Holding. Helstu stjórnendur Krogsgaard eru sagðir munu starfa áfram hjá fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×