Viðskipti innlent

Gengisþróun ýtti undir hagnað

Orku- og veitufyrirtæki eru talin með í samanburði Hagstofunnar á ársreikningum fyrirtækja árin 2004 og 2005 í nýútkomnum Hagtíðindum.
Orku- og veitufyrirtæki eru talin með í samanburði Hagstofunnar á ársreikningum fyrirtækja árin 2004 og 2005 í nýútkomnum Hagtíðindum. MYND/Vilhelm

Hagnaður fyrirtækja jókst milli áranna 2004 og 2005 samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Bætt afkoma er að nokkru rakin til styrkingar á gengi krónunnar.

Þegar litið er til rekstrarhagnaðar fyrirtækja sem voru í rekstri bæði árin, sýnir paraður samanburður að hagnaður hafi numið 14,1 prósenti af tekjum árið 2005, en 10,9 prósentum árið áður. „Hagnaður af reglulegri starfsemi þessara fyrirtækja var 14,4 prósent af tekjum árið 2005 og 11,3 prósent árið 2004," segir í nýútkomnum Hagtíðindum. „Þegar litið er á afkomu allra fyrirtækja í gagnasafninu 27.629 árið 2005 og 29.352 árið 2004, er hún hlutfallslega mjög svipuð og afkoma þeirra sem voru í pöruðum samanburði," segir Hagstofan.

Fram kemur í ritinu að á árinu 2005 hafi gengi krónunnar styrkst um 7,2 prósent, sem sé svipað og árið áður þegar gengið styrktist um 8,4 prósent. „Þrátt fyrir að gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum hafi hækkað jukust fjármagnsgjöld að frádregnum fjáreignatekjum 22.720 fyrirtækja, annarra en orku-, fjármála- og tryggingafyrirtækja um 14,1 milljarð króna árið 2005. Rekstrarhagnaður sömu fyrirtækja var 16,5 milljörðum króna meiri árið 2005 en árið 2004," segir Hagstofan.

Í yfirliti Hagstofunnar eru fyrirtæki í öllum atvinnurekstri, að meðtöldum flestum fyrirtækjarekstri hins opinbera. Starfsemi lífeyrissjóða er hins vegar undanskilin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×