Viðskipti innlent

Tekjuskattur fyrirtækja eykst um nærri fjórðung milli ára

MYND/GVA

Tekjuskattur lögaðila reyndist nærri fjórðungi meiri í fyrra en árið 2005 samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins. Í vefriti ráðuneytisins kemur fram að tekjuskatturinn hafi verið nærri 43 milljarðar króna í fyrra en hann var nærri 35 milljarðar árið á undan.

Þá er bent á að á síðustu fimm árum, eða frá því að fyrirtækjaskatturinn var lækkaður úr 30 prósentum í 18, hafi tekjuskattur lögaðila rúmlega fjórfaldast.

Þegar horft er til einstakra atvinnugreina kemur í ljós að fjármálaþjónusta skilar langmestum tekjuskatti í ríkissjóð, eða rúmum 18 milljörðum á síðasta ári. Það er gríðarleg aukning frá árinu 2003 þegar tekjurnar námu rétt rúmlega tveimur milljörðum. Þá hafa tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja í sérhæfðri þjónustu, eins lögfræðiþjónustu, bókhaldi, endurskoðun og arkitektúr einnig aukist mikið á undanförnum árum að sögn fjármálaráðuneytisins. Tekjuskattur lögaðila í bygginga- og mannvirkjagerð hefur jafnframt fjórfaldast frá árinu 2001.

Hins vegar hefur heildarafkoma fiskveiða nánast staðið í stað frá árinu 2001. Þá dregst tekjuskattur saman af síma-og fjarskiptaþjónustu sem stafar af verri afkomu en ekki minni umsvifum. Einnig gætir nokkurs samdráttar í hótel- og veitingahúsarekstri annars vegar og matvæla- og drykkjarvöruiðnaði hins vegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×