Viðskipti innlent

Frekara strandhögg hjá LÍ?

Bankinn, sem keypti helmingshlut í Merrion árið 2005, er orðaður við írskan sparisjóð
Bankinn, sem keypti helmingshlut í Merrion árið 2005, er orðaður við írskan sparisjóð

Gengi hlutabréfa í Landsbankanum náði hæsta gildi frá upphafi í gær vegna orðróms á markaði um að bankinn ætli sér að kaupa írska sparisjóðinn Irish Nationwide sem er í söluferli. Markaðsvirði Landsbankans stendur í 464 milljörðum og er gengið 41,45 krónur á hlut.

Samkvæmt frétt The Irish Times hefur Landsbankinn fengið HSBC til liðs við sig sem ráðgjafa vegna mögulegs tilboðs í írska fjármálafyrirtækið. Fram kemur að Landsbankinn hafi hafið áreiðanleikakönnun en samkvæmt fréttinni er talið sennilegt að fleiri bankar séu að skoða bækur Irish Nationwide.

Írski sparisjóðurinn er í eigu 125 þúsund félagsmanna sem ýmist eru lánveitendur eða lántakar. Hlutur hvers og eins gæti numið 10-15 þúsund evrum falllist þeir á að selja bankann.

Landsbankinn heldur utan um 68 prósenta hlut í írska verðbréfafyrirtækinu Merrion Capital. Þegar bankinn keypti sig inn í Merrion árið 2005 sagði Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans að írski fjármálamarkaðurinn væri afar áhugaverður kostur fyrir Landsbankann vegna stærðar, staðsetningar og einkenna. Ekki náðist í Sigurjón vegna fréttar Irish Times.

Fjárfestingargeta Landsbankans er um þrjátíu milljarðar króna þessa stundina án útgáfu nýs hlutafjár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×