Viðskipti innlent

Kalþörungaverksmiðjan komin í 40 tonn á dag

Framleiðslan hjá kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal hefur aldrei verið meiri og í síðustu viku var skipað út 320 tonnum af fullunnum afurðum. Er slíkt met. Vinnslan er komin upp í um 40 tonn en gert er ráð fyrir að um 60 tonn verði unnin á dag. Á bildudalur.is er haft eftir Guðmundi V. Magnússyni að áætlað sé að setja á vaktir við framleiðsluna og við það skapast fleiri störf.

"Samhliða útskipun afurðanna var einnig skipað út um 2.300 tonnum af óunnum kalkþörungi en sá útflutningur óunnins hráefnis hefur verið gagnrýndur nokkuð að undanförnu. Að sögn Guðmundar er það gert til að halda markaðshlutdeild á meðan verksmiðjan á Bíldudal er að komast í full afköst og þá verði útflutningi óunnins kalkþörungs að mestu hætt og hráefnið fullunnið á Bíldudal", segir á bildudalur.is.

Markaðsstarf kalkþörungaverksmiðjunnar hefur gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir. "Er nú þegar til staðar um 18 þúsund tonna markaður en var um 10 þúsund tonn. Til að sinna aukinni eftirspurn hefur þurft að flytja meira magn óunnins kalkþörungs til Írlands í vinnslu þar en ráð var fyrir gert á meðan verksmiðjan á Bíldudal væri að komast í ásættanleg afköst. Það kom einnig fram í máli Guðmundar að dregið verði úr vinnslu kalkþörunga á Írlandi um leið og framleiðslan er kominn í eðlilegt horf á Bíldudal", segir á Bíldudalsvefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×