Viðskipti erlent

Sættir í risaskattamáli Merck & Co

Stjórn bandaríska lyfjarisans Merck & Co, eins af stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi, hefur náð samkomulagi við bandarísk skattayfirvöld um greiðslu ógreiddra skatta á árabilinu 1993 til 2001. Greiðslan, með vöxtum og álögðum kostnaði, nemur 2,3 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði 155,8 milljörðum íslenskra króna. Þetta er önnur stærsta einstaka skattgreiðsla sögunnar.

Greiðslan mun ekki hafa áhrif á afkomutölur lyfjarisans á þessu ári þar sem fyrirtækið gerði ráð fyrir að þurfa að greiða skattana og lagði fjármuni í sérstakan sjóð vegna þessa, að sögn Merck. Dregist hefur að greiða skattana, sem eru til komnir meðal annars vegna samstarfs Merck við fjölda aðila sem horft var til að myndi lækka tekjuskattsálögur fyrirtækisins.

Merck hafði reyndar búist við að þurfa að greiða allt að 3,8 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 257,4 milljarða íslenskra króna, bæði í Bandaríkjunum og í Kanada. Ef það hefði verið raunin væri það stærsta einstaka skattgreiðsla sögunnar.

Engu að síður er þetta næst-stærsta skattgreiðslan. Metið á breski lyfjaframleiðandinn Glaxo-SmithKline Holding, sem greiddi 3,4 milljarða dala, jafnvirði 230 milljarða íslenskra króna, í eftirágreidda skatta í september í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×