Viðskipti erlent

Vísbendingar um vatn á Mars

Vísindamenn í Bandaríkjunum segja sterkar vísbendingar hafa komið fram um að vatn hafi runnið á Mars fyrir milljónum ára.
Vísindamenn í Bandaríkjunum segja sterkar vísbendingar hafa komið fram um að vatn hafi runnið á Mars fyrir milljónum ára. MYND/AFP

Miklar líkur eru á að vatn hafi eitt sinn flætt um sprungur undir yfirborði rauðu plánetunnar Mars. Þetta segir hópur vísindamanna við nokkra af helstu háskólum Bandaríkjanna í grein sem þeir birtu undir lok síðustu viku í vísindatímaritinu Science.

Vísindamennirnir drógu ályktunina af línum á yfirborði plánet-unnar sem komið hafa í ljós á háskerpumyndum af plánetunni sem geimfar frá geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur sent til jarðar frá síðasta hausti. Á myndunum getur að líta rákir utan í gljúfurveggjum á Mars. Vísindamennirnir segja að rákirnar hafi myndast þegar vatn lak niður veggina. Þá bæta þeir um betur og segja rákirnar benda til að vatn hafi runnið í stríðum straumi á plánetunni fyrir milljónum ára. Því geti yfirborð Mars að mörgu leyti hafa einhvern tíma líkst yfirborði jarðar, að þeirra mati.

Ómannaðar geimferðir til Mars hafa fram til þessa leitast við að leiða einmitt þetta í ljós, að leita vatns og vísbendinga um hvort líf hafi getað þrifist þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×