Viðskipti erlent

Stýrivaxtahækkun á Indlandi

Palaniappan Chidambaram, fjármálaráðherra Indlands, á fundi með fulltrúum fjármálastofnana á Indlandi á mánudag.
Palaniappan Chidambaram, fjármálaráðherra Indlands, á fundi með fulltrúum fjármálastofnana á Indlandi á mánudag. MYND/AFP

Seðlabanki Indlands, einn elsti banki landsins, hækkaði stýrivexti um 25 punkta í síðustu viku og standa vextir í landinu nú í 7,5 prósentum. Stýrivextir bankans hafa ekki verið hærri síðan í marsmánuði árið 2003.

Bankastjórn indverska seðlabankans segir hækkunina hafa verið nauðsynlega til að koma í veg fyrir að verðbólga, sem um þessar mundir mælist 6,1 prósent, fari úr böndunum. Vonir standa til að hækkunin komi ekki niður á hagvexti, sem seðlabankinn gerir ráð fyrir að verði allt að níu prósent á þessu ári samanborið við átta prósenta hagvöxt í fyrra.

Í rökstuðningi bankans kemur fram að eftirspurn hafi aukist í hagkerfi Indlands. Sýnt sé að meira magn peninga sé í umferð nú en áður, skuldir hafi aukist og verð á húsnæði fari upp á við. Stuðli það að aukinni verðbólgu.

Palaniappan Chidambaram, fjármálaráðherra Indlands, segir seðlabankann hafa með hækkuninni verið að gefa fjármálageiranum ákveðnar vísbendingar um hvert stefni. Verði bankar og aðrar fjármálastofnanir að hægja á útlánastefnu sinni og draga úr þensluhvetjandi aðgerðum, að hans sögn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×