Lífið

Löng nótt framundan hjá mörgum

Brynjar Freyr ætlar að horfa á Super Bowl á Players í kvöld.
Brynjar Freyr ætlar að horfa á Super Bowl á Players í kvöld. MYND/Rósa

„Við ætlum að hittast nokkrir á Players og horfa á leikinn,“ segir Brynjar Freyr Halldórsson, einn fárra Íslendinga sem hefur tekið ástfóstri við bandaríska fótboltann en í nótt verður hinn árlegi Super Bowl eða Ofur Skál. Um er að ræða stærsta íþróttaviðburðinn þar vestra en að þessu sinni eigast við Chicago Bears og Indianapolis Colts í Miami. Billy Joel syngur þjóðsönginn og sjálfur Prince spilar í hálfleik.

Ameríski ruðningurinn er álíka vel þekktur hér á Íslandi og handbolti í Bandaríkjunum. Áhugamenn um íþróttina hafa hins vegar komið sér upp spjallsvæði á netinu og þar hittast þeir til að ræða um framvindu mála. „Eflaust er þetta vegna þess að fólk á erfitt með að skilja reglurnar. Og svo er erfitt að reyna finna sér eitthvað lið til að halda með,“ segir Brynjar sem sjálfur féll fyrir íþróttinni árið 2004 þegar hann sá leik New York Giants og Minnesota Vikings. „Ég hef haldið með New York síðan þá. Liðið er umdeilt en var spáð mikilli velgengni í ár. Lenti hins vegar í meiðsla-og þjálfaravandræðum,“ segir hann.

Brynjar segir nánast ómöglegt að spá fyrir um hvort Birnirnir frá Chicago eða Colts beri sigur úr býtum. Þar vegur eflaust þyngst frammistaða leikstjórnanda Colts, Peyton Manning. „Hann hefur verið valinn besti leikmaður deildarinnar undanfarin tvö ár en ekki náð að sýna sitt rétta ljós í úrslitakeppninni. Þvi eru margir sem spá því að þetta sé árið hans,“ segir Brynjar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.