Erlent

Stefnuræðan hlýtur blendnar viðtökur

Dick Cheney, George W. Bush og Nancy Pelosi Bush Bandaríkjaforseti flutti næstsíðustu stefnuræðu sína á þriðjudagskvöldið. Að baki honum sátu þau Dick Cheney varaforseti og Nancy Pelosi þingforseti fulltrúadeildarinnar.
Dick Cheney, George W. Bush og Nancy Pelosi Bush Bandaríkjaforseti flutti næstsíðustu stefnuræðu sína á þriðjudagskvöldið. Að baki honum sátu þau Dick Cheney varaforseti og Nancy Pelosi þingforseti fulltrúadeildarinnar. MYND/AP

Stefnuræða George W. Bush Bandaríkjaforseta í gær hlaut blendnar viðtökur. Það sem hann sagði um nauðsyn þess að draga verulega úr notkun á olíu og bensíni hlaut þó mun betri viðtökur heldur en áform hans um að fjölga í bandaríska herliðinu í Írak. Það á bæði við meðal þingmanna á Bandaríkjaþingi og hjá stjórnmálamönnum víða um heim.

„Hugmyndin um loftslagsbreytingar er loksins komin á varir hans,“ sagði Barack Obama, ein helsta stjarna Demókrataflokksins og einn þeirra sem ætla að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 2008. „Það var löngu orðið tímabært,“ bætti hann við.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagðist hafa fyllst bjartsýni á þróun umhverfismála eftir að hafa hlýtt á Bush flytja ræðuna, en ýmsir sögðu Bush þó engan veginn hafa talað nægilega skýrt. „Þetta hefði getað verið enn betra ef hann nefnt hvað bandarísk heimili og fyrirtæki þurfa að gera,“ sagði til dæmis Connie Hedegaard, umhverfisráðherra Danmerkur.

Íraksáformin mættu hins vegar sterkri andstöðu, einkum frá demókrötum á Bandaríkjaþingi, sem vinna að því að fá þingið til að samþykkja ályktun gegn því að fjölga hermönnum í Írak. Jafnvel repúblikaninn Chuck Hagel, sem hefur lýst stuðningi sínum við þessa ályktun, sagði í gær: „Við verðum öll að vita hvað við erum að gera áður en við sendum 22 þúsund Bandaríkjamenn í viðbót í þessa kvörn.“

Í stefnuræðunni hvatti Bush þingmenn til þess að gefa Íraks-áformum sínum tækifæri áður en þeir hafni þeim. Í staðinn bauð hann demókrötum samvinnu í innanlandsmálum. Með ræðunni tókst honum þó ekki að sannfæra demókrata um Íraksmálið en þeir vildu meira tala um það heldur en hitt sem þeim fannst jákvætt í ræðunni.

„Þótt forsetinn haldi áfram að horfa framhjá vilja þjóðarinnar munum við ekki horfa framhjá misheppnaðri stefnu þessa forseta,“ sögðu demókratarnir Nancy Pelosi, þingforseti fulltrúa-deildarinnar, og Harry Reid, sem er leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, í sameiginlegri yfirlýsingu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×