Viðskipti erlent

Biðin styttist í Windows

Sérfræðingar mæla með því að þeir sem eigi gamlar tölvur kaupi sér nýjar eftir að nýjasta stýrikerfið frá Microsoft verður komið á markað. Þannig losni þeir við hausverkinn sem getur fylgt því að setja hugbúnað sjálfir upp.
Sérfræðingar mæla með því að þeir sem eigi gamlar tölvur kaupi sér nýjar eftir að nýjasta stýrikerfið frá Microsoft verður komið á markað. Þannig losni þeir við hausverkinn sem getur fylgt því að setja hugbúnað sjálfir upp. MYND/AFP

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar

Windows Vista, nýjasta stýrikerfi Microsoft, fyrir einstaklinga og heimili kemur á markað á heimsvísu undir lok þessa mánaðar. Samhliða því kemur á markað hugbúnaðarvöndlinn Microsoft Office 2007. Um stórt skref er að ræða, bæði fyrir tölvueigendur og Microsoft enda tæp sex ár síðan Windows XP, síðasta stýrikerfi fyrirtækisins, leit dagsins ljós.

Tölvuspekúlantar hafa allt frá því um mitt síðasta ár velt vöngum yfir því hvað nýja stýrikerfið þýði fyrir hinn almenna tölvueiganda. Nokkrir þeirra segja í samtali við bandaríska dagblaðið USA Today í vikunni að nýja stýrikerfið sé mun stærra í sniðum en forveri þess, sem þýði að tölvueigendur margir hverjir verði að endurnýja tölvukost sinn til að keyra stýrikerfið að einhverju gagni.

 

Sérfræðingar í tölvumálum hafa allt frá því helstu upplýsingar um stýrikerfið lágu fyrir í fyrra bent á þann mismun sem fólginn er í þeim lágmarksbúnaði sem Microsoft mælir með. Þannig segja þeir að nauðsynlegt verði að hafa að minnsta kosti 512 MB vinnsluminni fyrir grunnútgáfuna af Vista en allt upp undir 1 GB fyrir stærstu útgáfuna. Þá er stærð stýrikerfisins slík að nauðsynlegt er að hafa allt upp undir 15 GB laust pláss á harða diskinum til að keyra stýrikerfið upp.

Sérfræðingarnir eru á einu máli um að tölvueigendur sem hyggjast festa kaup á stýrikerfinu skuli sitja sem fastast og leggjast undir feld. Innsetning á kerfinu geti tekið allt frá 25 mínútum og upp í nokkrar klukkustundir, allt eftir því hvers öflug tölvan er. Gamlar tölvur geti því orðið ansi lengi að keyra stýrikerfið upp.

Aðrir sérfræðingar í tölvumálum sem USA Today ræddi við benda hins vegar á að besta ráðið sé að bíða með tölvukaup þar til nýja stýrikerfið verði komið á markað. Windows Vista muni fylgja með í kaupum á flestum gerðum nýrra tölva og þannig losni tölvunotendur við höfuðverkinn sem fylgi því að setja upp nýjan hugbúnað. Það eina sem þeir þurfi hins vegar að fylgjast með sé hvaða útgáfa af þeim sex af Windows Vista sem koma á markað fylgi með í kaupunum á nýrri tölvu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×