Viðskipti erlent

Indverjar fagna lendingu

Indverska geimfarið SRE-1 lenti heilu og höldnu í Bengalflóa á mánudagsmorgun. Með lendingunni er spor markað í sögu geimvísindasögunnar enda geimfarinu ætlað að leggja grunninn að mönnuðum geimskotum Indverja í framtíðinni.

Geimfarinu, sem var ómannað og einungis rúmt hálft tonn að þyngd, var skotið á loft 10. janúar síðastliðinn frá Satish Dhawan-geimstöð Indverja í Sriharikota í suðurhluta landsins. Geimfarið flutti fjögur gervitungl út í geim frá jafn mörgum löndum og var á sporbraut um jörð í 11 daga áður en það sneri heim á ný.

Með geimskotinu var tækifæri nýtt til að prófa stýrikerfi flaugarinnar og framkvæma ýmsar tilraunir í þyngdarleysi í geimnum. Þá voru gerðar prófanir á geimfarinu er það kom aftur inn fyrir gufuhvolf jarðar en stefna Indverja mun vera að koma mönnuðu geimfari á loft á næstu árum, að sögn talsmanns geimvísindastofnunarinnar indversku.

Sjónvarpsstöðvar á Indlandi sýndu beint frá því þegar þyrlur á vegum indverska hersins flugu áleiðis að lendingarstað geimfarsins suður í Bengalflóa til að ná í það á mánudag og flytja að geimstöðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×