Viðskipti innlent

Útlán til íbúðakaupa aukast

Meðalupphæð lána á hvern íbúðakaupsamning hækkaði um eina milljón króna milli nóvember og desember.
Meðalupphæð lána á hvern íbúðakaupsamning hækkaði um eina milljón króna milli nóvember og desember.
Útlán Íbúðalánasjóðs og bankakerfisins jukust um rúm sex prósent í desember síðastliðnum frá fyrra mánuði. Alls námu lánin rúmum níu milljörðum króna.

Að því er fram kemur í umfjöllun greiningardeildar Kaupþings hélt Íbúðalánasjóður áfram að lána um ríflega helming nýrra útlána, en útlán hjá sjóðnum námu 4,9 milljörðum króna. „Samhliða þessari útlánaaukningu jókst velta á fasteignamarkaðnum og má líklega að einhverju leyti rekja þennan viðsnúning til bættra verðbólguhorfa og væntinga um aukinn kaupmátt í byrjun árs,“ segir greiningardeildin.

Meðallánsfjárupphæð á hvern kaupsamnings hækkaði um eina milljón milli nóvembers og desembers, fór í um 13,9 milljónir króna miðað við höfuðborgarsvæðið og Akureyri.

„Eftirspurn á fasteignamarkaði virðist því vera að aukast á nýjan leik þótt ekki sé hægt að draga of miklar ályktanir af þessum tölum,“ segir greiningardeild Kaupþings, en bendir um leið á að desember sé annar mánuðurinn í röð sem útlán bankanna aukist. „Og virðist því vera að birta til á fasteignamarkaði.“ Aukin bjartsýni er að hluta rakin til lækkunar virðisaukaskatts á matvæli og lækkunar tolla.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×