Lífið

Ný stjarna fædd hjá bresku hirðinni

Kate MIddleton hefur heillað samlanda sína upp úr skónum og þykir líkleg til að verða næsta drottning Breta.
Kate MIddleton hefur heillað samlanda sína upp úr skónum og þykir líkleg til að verða næsta drottning Breta.

Kate Middleton, kærasta Vilhjálms prins til fjögurra ára, gæti verið bjargvættur Buckingham-hallar en bresku fjölmiðlarnir kalla hana „hina nýju prinsessu fólksins".

Breskir fjölmiðlar hafa að undanförnu líkt Kate við hina elskuðu móður Vilhjálms, Díönu prinsessu. Sjálf segist Kate ekki gefa mikið fyrir þann samanburð sem er þó óhjákvæmilegur. Vefútgáfa Guardian skautaði yfir sviðið og bar saman fyrstu fréttirnar af Díönu og nú þá umfjöllun sem Kate hefur mátt þola. Í fyrstu virðast þær keimlíkar en að mati Gurdian virðist Kate líklegri til að lifa af glímuna við draugana í Buckingham.

Meginmunurinn á Díönu og Kate liggur í mönnunum sem komu þeim í kastljós fjölmiðla.

Samband Kate og Vilhjálms er talið byggt á vináttu og virðist hafa verið ást við fyrstu sýn. Vilhjálmur fær ekki þá konunglegu meðferð sem hann er vanur heima fyrir hjá kærustu sinni því Kate hefur sést segja honum til syndanna og sagði í gamni að það væri Vilhjálmur sem væri sá heppni. Slík rómantík var ansi fjarlægur hlutur hjá Karli og Díönu á sínum tíma en til gamans má geta að hann bað hennar á heimili Camillu Parker-Bowles, núverandi eiginkonu sinnar. Þá höfðu fjölmiðlar birt lista yfir þær þrjátíu konur sem komu til greina fyrir næsta konung Bretlands, þeirra á meðal var systir Díönu.

Ævintýrið fagra um saklausu stúlkuna og kvennabósann frá Buckingham er ekki sveipað jafnmiklum dýrðarljóma og margir kynnu að halda. Fjölda ástkvenna Karls hafði verið hafnað á þeim forsendum að þær væru ekki hreinar meyjar. Slúðurblöðin reyndu allt hvað þau gátu til að reyna að finna eitthvað krassandi um ástarlíf Díönu en höfðu ekki erindi sem erfiði. Minna er vitað um samlíf Kate með öðrum karlmönnum en breska blaðið Spectator hélt því fram fullum fetum að Kate væri eins óspjölluð og verðandi drottningu sæmdi.

Og þar liggja vegir Kate og Díönu saman á ný; baráttan við paparazzi-ljósmyndaranna sem bíða á hverju götuhorni og fjölmiðla sem leggja sig í líma við að grafa upp eitthvað „óheppilegt" úr fortíðinni. Karl Bretaprins hefur séð sig neyddan til að taka í taumana og biðlaði nýverið til fjölmiðla um að þeir sýndu Kate Middleton meira næði en Díönu. Karl vonast vafalítið til þess að þurfa aldrei aftur að heyra eitthvað í líkingu við lýsingu Díönu prinsessu á hirðlífinu og fjölmiðlum. „Þetta er farið úr böndunum. Ég finn miklu meira fyrir einveru heldur en vanlíðan," sagði Díana, buguð af kastljósinu.

Þegar öllu er á botninn hvolft binda Bretar miklar vonir við Kate sem arftaka Díönu, manneskju sem hirðina hefur vantað og þjóðin hefur saknað í áratug. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.