Viðskipti innlent

Hlutabréf Hannesar flutt til Hollands

Eignarhaldsfélagið Oddaflug hefur fært allan hlut sinn í FL Group til Oddaflugs BV í Hollandi. Síðarnefnda félagið er að öllu leyti í eigu fyrrnefnda félagsins sem er að fullu í eigu Fjárfestingafélagsins Primusar ehf. Hannes Smárason, forstjóri FL Group og stærsti hluthafinn, á Primus að öllu leyti.

Flutningur bréfanna er að öllum líkindum tilkominn vegna hagstæðari skattaumhverfis í Hollandi og má reikna með lágu tekjuskattshlutfalli Oddaflugs og Primusar til framtíðar ef gengishagnaður verður af bréfunum. Exista og FL Group hafa farið sömu leiðir varðandi kjölfestuhluti sína í íslenskum félögum.

Um er að ræða 19,77 prósent af hlutabréfum í FL Group. Hlutabréf í FL Group hækkuðu um 3,5 prósent í gær á fyrsta viðskiptadegi nýs árs. Hækkunina má að hluta til rekja til hækkana á hlutabréfum í AMR Corporation, móðurfélagi American Airlines. Bréfin höfðu hækkað yfir átta prósent um hádegisbil, en FL er þriðji stærsti hluthafinn í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×