Viðskipti innlent

Hækkunarferli talið lokið

Davíð Oddsson seðlabankastjóri
Davíð Oddsson seðlabankastjóri

„Eitt af því sem vekur athygli við síðustu verðbólguspá Seðlabankans er hversu hárri verðbólgu bankinn spáir á allra næstu mánuðum,“ segir greiningardeild Landsbanka Íslands og telur spá bankans of háa til skamms tíma litið. „Skammtímaspár bankans hafa verið óvenju slæmar í ár. Þannig var spáin allt of lág í mars, en allt of há í júlí,“ segir deildin í nýrri umfjöllun.

Ákvörðun Seðlabankans um óbreytta stýrivexti var í samræmi við spá greiningardeilda bankanna og gera þær jafnframt ráð fyrir að vextir verði ekki hækkaðir á aukavaxtaákvörðunardegi sem Seðlabankinn hefur boðað 21. desember. Þó sagði Seðlabankinn þegar vaxtaákvörðun var kynnt í vikunni að frekari hækkunar kynni að verða þörf. Greiningardeild Glitnis telur það hins vegar ólíklegt. „Að minnsta kosti þarf eitthvað mikið að gerast til að svo verði svo sem snögg gengislækkun á allra næstu vikum.“

Að sama skapi segir greiningardeild Kaupþings að frekari vaxtahækkanir gætu valdið miklum samdrætti í hagkerfinu á næstu tveimur árum sem endurspeglast myndi í harðri og sársaukafullri lendingu í efnahagslífinu. „Því telur greiningardeild ólíklegt að bankinn vilji feta þá braut,“ segir deildin í nýju sérriti af Peningamálum Seðlabankans.

Þá segir Gunnar Árnason, efnahagssérfræðingur SPV, jafnvel frekar líkur á að vextir verði lækkaðir í desember. „Veður geta skipast fljótt í lofti og þá getur verið langt í 26. janúar,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×