Erlent

Þrýst á de Villepin að segja af sér

Þrýst er á franska forsætisráðherrann að segja af sér vegna ásakana um að hann hafi látið rannsókn á meintum mútugreiðslum beinast sérstaklega að samráðherra sínum. Dominique de Villepin forsætisráðherra kom út af vikulegum ráðherrafundi í morgun og vildi ekkert segja um málið. Það er reyndar allt hið neyðarlegasta. Fyrir tveimur árum kom fékk franskur dómari í hendurnar lista yfir menn sem áttu að hafa þegið mútugreiðslur sem settar hefðu verið á leynireikninga í Lúxemborg. Múturnar áttu að hafa verið greiddar í tengslum við sölu á frönskum freygátum til Tævans. Eitt nafnið á listanum var Nicolas Sarkozy. Hann er innanríkisráðherra og helsti keppinautur Villepins á hægri væng stjórnmálanna. Sarkozy fer ekki leynt með að hann ætlar sér forsetaembættið í kosningum á næsta ári. En eftir að listinn komst í hámæli var málið sett í rannsókn, og nú er Villepin sakaður um að hafa reynt að fá rannsakendur til að beina athygli sinni sérstaklega að keppinaut sínum Sarkozy. Franskur almenningur veit ekki lengur hverju hann á að trúa. Dagblaðið Le Monde birti í síðustu viku minnispunkta sem háttsettur rannsakandi á að hafa skrifað á fundi með forsætisráðherranum. Þar stendur meðal annars: "með Nicolas Sarkozy á heilanum". Síðar kom í ljós að listinn var falsaður og engar spurningar eru uppi um að nokkrar mútugreiðslur hafi átt sér stað. Spurningin sem eftir stendur, er hins vegar hvort franski forsætisráðherrann hafi reynt að beina rannsókninni sérstaklega að samráðherra sínum. De Villepin neitar þessum ásökkunum en Sarkozy segist vilja vita sannleikann. Og á meðan óvinsældir de Villepins aukast þá bíður Sarkozy óþreyjufullur eftir kosningum til forseta á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×