Erlent

Þriggja ára fangelsi fyrir að afneita helförinni

Enn er tekist á um hvar mörk tjáningarfrelsisins liggja, að þessu sinni í réttarsal í Vínarborg í dag. Þar viðurkenndi breski sagnfræðingurinn David Irving að hafa afneitað helförinni gegn gyðingum. Fyrir vikið var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi.

Irving var handtekinn í nóvember á síðasta ári en ummælin sem dómstóllinn í Vín fjallar nú um lét hann falla í fyrirlestrarferð um Austurríki fyrir sextán árum. Þá sagði hann að allar frásagnir um helförina gegn gyðingum væru mjög ýktar, gasklefarnir í Auswitch hefðu ekki verið til og að Adolf Hitler hefði ekki haft hugmynd um að gyðingar hefðu orðið fyrir ofsóknum á heimsstyrjaldarárunum.

Við réttarhöldin í dag viðurkenndi Irving fúslega að hafa haldið þessu fram en jafnframt sagðist hann hafa séð ný gögn á síðustu árum sem fullvissuðu hann um að milljónir gyðinga hefðu verið drepnar á kerfisbundinn hátt. Þrátt fyrir það var engan iðrunartón að finna hjá Irving. Hann sagði fáranlegt að réttað væri yfir honum vegna skoðana sem hann hefði látið í ljós fyrir 16 árum sem sagnfræðingur og að sömuleiðis væri fáránlegt að yfirvöld í Austurríki gripu til þessa ráðs til að þykjast vera ekki nasistaríki.

Það er sérstök tilviljun að réttarhöldin yfir Irving skuli fara fram á svipuðum tíma og allt logar í ófriði vegna Múhameðsmyndanna svonefndu en þeir sem stutt hafa birtingu myndanna gera það einmitt í nafni tjáningarfrelsisins. Í þessu máli ákvað hins vegar dómstóllinn í Vín að tjáningarfrelsinu yrði að setja einhverjar skorður því fyrir ummælin umdeildu var Irving dæmdur í þriggja ára langt fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×