Erlent

Segir Bandaríkjamenn fylgja Satan

Einn æðsti klerkur Írana óskaði í dag eftir skynsamlegri lausn á kjarnorkudeilunni en sagði um leið Bandaríkjamenn fylgja hinum mikla Satan. Hann sagði ekki koma til greina að Íranar hættu við kjarnorkuáætlanir sínar.

Kínversk stjórnvöld hvöttu í dag Írana til að starfa af heilum hug með Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni en stofnunin hefur reynt að fá Írana til að láta af auðgun úrans. Utanríkisráðherra Kína viðurkenndi rétt Írana til að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi en lagði mikla áherslu á að írönsk stjórnvöld starfi innan marka sáttmálans um takmarkanir á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Bandaríkjamenn hafa sagt ekki koma til greina að Íranar fái að auðga úran að neinu leyti og útiloka ekki árásir á landið. Ajatollann Meshkini, einn æðsti klerkur Írana, óskaði í dag eftir skynsamlegri og pólitískri lausn á kjarnorkudeilunni, en lagði þó áherslu á að ríkið myndi ekki gangast við kröfum um að hætta allri kjarnorkustarfsemi. Þá sagði hann Bandaríkjamenn fylgja hinum mikla Satan. Kjarnorkuáætlun Írana er nú til umræðu á fundi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í Vín, en Írnara eiga á hættu að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna grípi til refsiaðgerða gegn landinu.

En þrátt fyrir fullyrðingar Írana um að þeir hafi engan áhuga á að eignast kjarnavop hafa þeir stórlega aukið framleiðslu á eldflaugum sem geta borið kjarnaodda. Búist er við að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki ákvörðun um hvað gera skuli fyrir vikulok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×