Erlent

Tæplega hundrað fangar hafa látist í fangelsum Bandaríkjahers

Tæplega hundrað fangar hafa látið lífið í fangelsum Bandaríkjahers í Írak og Afganistan síðan í ágúst árið 2002. Fjölmargir þeirra munu hafa verið pyntaðir til dauða. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku mannréttindasamtakanna Human Rights First.

Greint var frá innihaldi skýrslunnar í fréttaskýringaþættingum Newsnight hjá breska ríkisútvarpinu, BBC, í gærkvöld. Skýrslan verður kynnt formlega síðar í dag. Hún byggir meðal annars á upplýsingum frá heimildarmönnum í bandaríska stjórnkerfinu. Þar segir að níutíu og átta fangar hafi látist í haldi Bandaríkjamanna og þar af eru annað hvort staðfest eða grunað að þrjátíu og fjórir þeirra hafi verið myrtir.

Önnur ellefu dauðsföll eru sögð grunsamleg og talið er að á bilinu átta til tólf fangar hafi verið pyntaðir til dauða. Talsmaður Human Rights First segist sannfærð um að upplýsingar samtakanna séu áreiðanlegar.

Sendiherra Bandaríkjanna í Írak sagði í viðtali við BBC að flestir bandarískir hermenn í Írak færu að lögum en því miður væru svartir sauðir inn á milli sem misþyrmdu föngum. Mikilvægt væri að draga þá menn fyrir dóm.

Talsmaður Amnesty International segir skýrsluna sláandi og mikilvægt að dauðsföllin verði rannsökuðu. Fulltrúar bandaríska varnarmálaráðuneytisins segja ásakanirnar mjög alvarlegar, þær verði rannaskaðar og brotamenn sóttir til saka. Hann sagði samtökin hafa vakið athygli á því að dómar yfir þeim sem gerðust sekir um brot sem þessi væru of vægir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×