Viðskipti innlent

Selja stofnfé fyrir fimmtán milljarða

Þrír stærstu sparisjóðirnir ætla að selja nýtt stofnfé fyrir fimmán milljarða króna að söluvirði.
Þrír stærstu sparisjóðirnir ætla að selja nýtt stofnfé fyrir fimmán milljarða króna að söluvirði.

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Þrír stærstu sparisjóðir landsins, SPRON, SPV/SPH og SpKef, ætla að selja nýtt stofnfé fyrir um 14,7 milljarða króna á næstunni. Þarna er um talsverða fjárhæð að ræða þegar haft er í huga að allt stofnfé í sparisjóðakerfinu nam tæpum sjö milljörðum króna um síðustu áramót.

Stofnfjárútgáfan styrkir eiginfjárstöðu sparisjóðanna og gerir þeim kleift að vaxa frekar. Hún býður einnig upp á þann möguleika að arðgreiðslur til stofnfjáreiganda aukist.

Fyrir síðustu helgi hófst tíu milljarða króna stofnfjárútboð í SPRON þar sem núverandi stofnfé verður aukið um 90 prósent. Ef allt stofnféð selst verður heildarvirði stofnfjár um 20 milljarðar í SPRON. Þetta er önnur stofnfjáraukningin í SPRON á þessu ári en í vor var nýtt stofnfé selt fyrir fimm milljarða króna.

Stjórn hins nýja sameinaða sparisjóðs SPH og SPV hefur ákveðið að nýta heimild til stofnfjáraukningar að fullu með því að selja nýtt stofnfé fyrir 3,7 milljarða króna. Útboðslýsing er til yfirlestrar hjá FME en ekki liggur endanlega fyrir hvort stofnfjáraukningin fari fram á þessu ári.

Þá liggur fyrir útboðslýsing í Sparisjóðnum í Keflavík um sölu á stofnfé fyrir hálfan milljarð að nafnvirði samkvæmt heimild frá árinu 2003. Þetta samsvarar einum milljarði króna miðað við uppreiknað gengi stofnfjárbréfa sjóðsins. Útboðið hefst þann 21. desember.

„Tilgangurinn með þessari sölu er að styrkja eiginfjárgrunn félagsins. Afkoma sparisjóðsins verður góð á þessu ári en aukinn stærð og meiri hagnaður taka í svokölluð eiginfjárhlutföll,“ segir Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri í SpKef.

Jafnframt liggur fyrir fyrir stofnfjáreigendafundi í Spkef tillaga um að stjórn sparisjóðsins fái heimild til að gefa út nýtt stofnfé fyrir 700 milljónir króna að nafnvirði eða 1,4 milljarða að söluvirði. Geirmundur segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um sölu þess hlutar samþykki fundurinn tillöguna.

Á fundinum verður lögð fram tillaga um breytingar á samþykktum sjóðsins vegna samruna við Sparisjóðinn í Ólafsvík. Þar er gert ráð fyrir að starfssvæði sparisjóðsins verði útvíkkað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×