Innlent

Eyjafjarðará skemmdi flugvallarsvæðið

Skemmdir urðu hjá Flugmálastjórn á Akureyri í gær eftir að Eyjafjarðaráin ruddist inn á flugvallarsvæðið. Fólk í Eyjafjarðarsveit var flutt til vegna hættu á skriðuföllum en flóðin eru í rénun.

Öllu flugi milli Akureyrar og Reykjavíkur var aflýst síðdegis í gær þegar Eyjafjarðaráin breiddi úr sér í vatnavöxtunum með þeim afleiðingum að flugvallarsvæðið fór á flot eins og sést á þessum myndum. Sigurður Hermannsson umdæmisstjóri Flugmálastjórnar á Norðurlandi segir að tjón hafi orðið á loftræstibúnaði í kjallara flugstöðvarinnar og í tækjageymslum. Vatn flæddi inn í fjögur til fimm skýli.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að vatnið er að sjatna og búast menn við því að hið versta sé yfirstaðið. Flugumferð hófst aftur með eðlilegum hætti í morgun.

 

Fram í Eyjafjarðarsveit er Eyjafjarðarbraut vestri enn lokuð þar sem vegurinn rofnaði beggja megin við brúna yfir Djúpadalsá. Fjölskyldur frá fimm bæjum fluttu sig til í nótt vegna hættu á skriðuföllum en engar meiri háttar skriður hafa fallið síðan í gærmorgun. Litlu munaði að flæddi yfir stóran hluta af veginum með liggur meðfram Eyjafjarðará vestan til í gær eins og þessar myndir sýna. Og þá belgdi Brunná sig út og flæddi yfir veginn í nótt með þeim afleiðingum að kona fór út af á bíl sínum og sökk hann í vatnselginn.

 

 

Skriða féll í Hörgárdal og einangraði nokkra íbúa og þá féllu einhverjar smáskriður í gærkvöld án þess að valda frekari skemmdum við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit. Þar varð stórtjón í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×