Innlent

Björgunarsveitir klári verkefni og verði svo í viðbragðsstöðu

Samhæfingarstöð hefur verið virkjuð.
Samhæfingarstöð hefur verið virkjuð. MYND/Stöð 2
Almannavarnarnefndir í Árnessýslu ákváðu á fundi sínum sem var að ljúka björgunarsveitir muni ljúka fyrirliggjandi verkefnum og fara síðan heim að því loknu en verða viðbúnar útköllum. Þær hafa í dag aðstoðað hestaeigendur við að bjarga hrossum úr úthaga.

Í tilkynningu almannavarna kemur fram að skemmdir hafi orðið á vegum í uppsveitum sýslunnar og eru vegfarendur hvattir til að hafa varann á á ferðum sínum á flóðasvæðunum. Starfsmenn vegagerðar eru á ferð um sýsluna að merkja lokanir eins og hægt er.

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu hefur kallað til aðstoðar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og fengið þaðan menn og tæki til að bregðast við fari svo að flæði inn í hús í sýslunni en þegar hefur flætt inn í kjallara kirkjunnar á Selfossi. Slökkvilið Ölfuss er jafnframt í viðbragðsstöðu.

Varað er við hugsanlegri skriðhættu í fjöllum vegna mikillar úrkomu og leysinga á skömmum tíma að undanförnu.

Veðurspá gerir ráð fyrir áframhaldandi úrkomu en kólnandi með morgninum. Gera má ráð fyrir vaxandi rennsli í ám fram til miðnættis og að sú hæð haldist fram eftir nóttu að minnsta kosti. Fólk er því beðið að hafa varann á á ferðum sínum.

Þá eru foreldrar hvattir til að gæta að börnum sínum og sjá til þess að þau fari ekki í of mikla nálægð við vatnsföll en nokkuð hefur borið á því að börn séu að leik á bökkum Ölfusár við Selfossi.

Næsti fundur almannavarnarnefnda í Árnessýslu er boðaður klukkan tíu í fyrramálið og verður staðan þá metin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×