Innlent

Þingmenn á leið í skemmtiferð til útlanda?

Tekist var á um það á Alþingi nú eftir hádegið hvort ákveðinn hópur þingmanna væri á leið í skemmtiferð nú eftir þinglok. Það var Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta og vakti athygli á orðum Guðjóns Ólafs Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, í fréttum Ríkisútvarpisins í hádeginu.

Þar sagði Guðjón að Framsóknarflokkurinn vildi einn áfram vinna eftir þörfum og ljúka Ríkisútvarpinu fyrir jól en Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnarandstaðan hefðu ákveðið að semja um þinglokin til þess að geta komist í skemmtiferð til útlanda. Vísaði hann þar til ferðar á vegum utanríkismálanefndar sem Halldór Blöndal fer fyrir og er til Eystrasaltslanda. Spurði Mörður Sólveigu Pétursdóttur þingforseta hvort hún hagaði þingstörfum eftir skemmtiferðum þingmanna.

Sólveig svaraði því til að hún hefði ekki heyrt fréttina en sagði störf þingsins ganga fyrir. Þá lýsti hún undrun sinni á orðum Guðjóns Ólafs.

Halldór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar, kvaddi sér svo hljóðs og fór fram á það að taka fyrir umræðu um störf þingsins en það er jafnan ekki hægt nema í upphafi þingfundar.

Sagði Sólveig þá ætla efna til nýs fundar á þingi eftir atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir svo hægt væri að ræða málið frekar undir liðnum störf þingsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×