Innlent

Ljósastýrð gatnamót nýtt eins lengi og kostur er

Samgönguráðherra telur eðlilegt að nýleg fjárfesting í ljósastýrðum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar verði nýtt eins lengi og kostur er, en segir að vinna sé hafin við undirbúning mislægra gatnamóta.

Samgönguráðherra sagði í svari við fyrirspurn á Alþingi í dag að það hefðu verið mistök af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík fyrir tveimur árum að hætta við að hafa þessi gatnamót mislæg en leggja þess í stað í kostnað við að hafa þau áfram ljósastýrð. Sagði ráðherrann að nú væri búið að snúa við blaðinu og stefnt að því að hafa þarna mislæg gatnamót. Þau væri hins vegar mikið og flókið mannvirki, og þótt hann nefndi að verkhönnun yrði lokið eftir tvö ár mátti skilja hann svo að langt væri í framkvæmdir. Eðlilegt væri að samgönguyfirvöld gerðu þá kröfu að nýleg fjárfesting í ljósastýrðum gatnamótum yrði nýtt sem lengst.

Ráðherrann var einnig spurður um tvöföldun Hvalfjarðarganga og upplýsti að hann hefði falið Vegagerðinni að eiga viðræður við Spöl með hvaða hætti mætti standa að því að auka afkastagetu jarðganganna og aftur mátti skilja loðin svör ráðherrans svo að menn þyrftu að bíða lengi eftir framkvæmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×